„Það kaupir enginn þetta leik­rit í kringum ramma­á­ætlun, sem var eins ó­lýð­ræðis­legt og ó­fag­legt og það hefði mögu­lega geta orðið,“ segir Snæ­björn Guð­munds­son jarð­fræðingur og full­trúi sam­takanna Náttúrugrið, í Face­book-færslu.

Hann segir fólk innan Vinstri-grænna geta reynt að þræta fyrir það að þau séu enn þá náttúru­verndar­flokkur, „en verkin segja allt sem segja þarf,“ segir Snæ­björn.

Ramma­á­ætlun var sam­þykkt á Al­þingi fyrr í dag en þar voru hug­myndir um­hverfis- og sam­göngu­nefndar Al­þingis um þriðja á­fanga ramma­á­ætlunar sam­þykktar. Með því verða ýmis svæði færð úr verndar­flokki yfir í bið­flokk á orð við Héraðs­vötn í Skaga­firði eða úr bið­flokki yfir í orku­nýtingar­flokk á borð við Búr­fells­lund.

„Jökuls­ánum í Skaga­firði og Þjórs­ár­verum með fossum Þjórs­ár mokað úr vernd þremur dögum fyrir þing­lok. Þetta mun aldrei gleymast,“ segir Snæ­björn. Hann segir VG láta undan Lands­virkjun og Samorku „á eins lúa­legan hátt og mögu­legt er.“

Hann gagn­rýnir Katrínu Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, fyrir að segja að enginn fái þá ramma­á­ætlun sem hann vill. „Lands­virkjun fær ein­mitt þá ramma­á­ætlun sem hún vill.

„Þessi af­greiðsla er ekki „bið­leikur í náttúru­vernd“ eins og Guð­mundur Ingi fé­lags- og vinnu­mála­ráð­herra segir, hér er verið að gefa Lands­virkjun dauða­færi. Þjórs­ár­ver og fossar Þjórs­ár eru enn einu sinni komin í stór­hættu og fólk sem þrætir fyrir það er lík­legast búið að strauja náttúru­verndar­minnið sitt,“ segir Snæ­björn.

Snæ­björn segir fólk sem hefur varið öllum sínum frí­tíma í ára­raðir við náttúru­vernd fá blauta tusku framan í and­litið af VG. „Það eru ára­raðir af bar­áttu fram undan en nú á enn fleiri og enn stærri víg­stöðvum en áður,“ bætir hann við.

Snæbjörn endar færsluna á að segja: „Verði þing­mönnum VG að góðu að rétt­læta þessi ömur­leg­heit fyrir sjálfum sér. Ég hugsa að það verði nóg af fólki til að rétta þeim haus­pokana á næsta náttúru­verndar­þingi.“