Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,77 prósent milli apríl og maí og verðbólguhraðinn er nú 7,6 prósent miðað við heilt ár. Er þetta mjög í takt við spár greiningaraðila.

Enn sem komið er hafa vaxtahækkanir ekki komið böndum á hækkun íbúðaverðs. Mikill skortur á húsnæði er staðreynd og greinilegt að vaxtatæki Seðlabankans slær ekki á eftirspurnina. Þarf það ef til vill ekki að koma á óvart þegar horft er til þess að bygging nýrra íbúða hefur ekki haldið í við eftirspurn um langt skeið.

Við bætist nú að hjól efnahagslífsins eru að komast á fullan snúning og mikil þörf er fyrir vinnuafl á íslenskum vinnumarkaði. Talið er að ferðaþjónustan þurfi að fá sjö til níu þúsund erlenda starfsmenn til landsins á þessu ári og því næsta til að hægt sé að sinna ferðamönnum sem streyma til landsins.

Þá vantar annan eins fjölda sérfræðinga til starfa í vaxtarfyrirtækjum landsins á komandi misserum. Allt þetta fólk þarf húsnæði og framboðið er einfaldlega ekki nægilegt og ekki útlit fyrir að það breytist í bráð.

Verkalýðsleiðtogar hafa lýst miklum vonbrigðum með vaxtastefnu Seðlabankans og lýst efasemdum um virkni hennar. Stýrivextir Seðlabankans dugi skammt gegn innfluttri verðbólgu og miklar hækkanir íbúðaverðs sýni að ekki dugi vaxtavopnið þar heldur.

Þetta ástand er ekki nýtt hér á landi. Ekki er heldur nýtt að aðilar vinnumarkaðarins hafi áhyggjur af skaðsemi peningamálastefnu Seðlabankans. Í júní og ágúst 2007 rituðu formaður og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) bréf til Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og lýstu áhyggjum sínum af afleiðingum peningamálastefnu Seðlabankans.

Þá töldu SA nauðsynlegt að endurskoða verðbólgumarkmið Seðlabankans og taka tillit til þess að stjórntæki bankans, stýrivextirnir, hefðu takmörkuð samdráttaráhrif á eftirspurn en leiði til mikilla sveiflna á gengi íslensku krónunnar. Undir bréfið rituðu Ingimundur Sigurpálsson, þáverandi formaður, og Vilhjálmur Egilsson, þáverandi framkvæmdastjóri SA.

Sama virðist uppi á teningnum nú. Vaxtahækkanir virðast ekki slá á eftirspurn en gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu.

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir í samtali við Fréttablaðið að rætt sé um að í Evrópu sé vöxtum vísvitandi haldið lágum til að kynda undir verðbólgu vegna þess að hún lækki í raun ríkisskuldir – verið sé að nýta hana til að rýra höfuðstól ríkisskulda.

Jón segir þetta meðal annars skýra hvers vegna gengi íslensku krónunnar hafi verið að styrkjast gagnvart pundi og evru.

„Vaxtatækið gegnir mörgum hlutverkum. Eitt þeirra er að senda þau skilaboð að seðlabanki taki verðbólguna alvarlega. Tilgangurinn með vaxtahækkunum er ekki endilega að hafa mikil áhrif á fyrirtæki og einstaklinga heldur að senda skilaboð.“