Útlit fyrir vetrarlegra veður á landinu en hefur verið í janúar, en það gengur í norðaustanátt í dag með snjókomu eða éljum í flestum landshlutum, en slyddu með suðurströndinni. Norðaustlæg átt 8-15 m/s upp úr hádegi, hvassast norðan til, að því sem fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunar. 

„Bætir heldur í vind þegar líður á daginn, hvassviðri eða jafnvel stormur um landið norðvestanvert og él, en heldur hægari vindur og snjókoma um landið norðaustanvert og má því búast við lélegu skyggni á þeim slóðum og vetrarfærð. Einnig má búast við snjómuggu sunnantil á landinu þó þar verði mun hægari vindur.“
Dregur úr vindi og ofankomu í nótt og á morgun en birtir víða til.

Á mánudag:
Gengur í suðaustan 8-15 með snjókomu, fyrst suðvestantil. Slydda eða rigning sunnanlands um tíma síðdegis. Suðvestan 5-13 og skúrir eða él SV-til um kvöldið. Frost 0 til 6 stig, en 0 til 4 stiga hiti við S-ströndina. 

Á þriðjudag:
Hvöss norðaustanátt og víða snjókoma eða él fyrir norðan, en ananrs mun hægari og úrkomuminna. Dregur úr vindi og ofankomu um kvöldið. Frost 0 til 9 stig, mildast syðst. 

Á miðvikudag:
Norðlæg átt og stöku él, einkum fyrir norðan. Frost 2 til 14 stig, kaldast inn til landsins. 

Á fimmtudag:
Breytileg átt. Snjókoma eða él í flestum landshlutum og frost um mest allt land, kaldast A-til. 

Á föstudag:
Útlit fyrir austlæga átt. Sums staðar él og víða frost, síst allra syðst.