Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, segir ljóst að það sé algjör óþarfi að vera á nagladekkjum innan borgarmarka í vetur vegna þess hve góð vetrarþjónustan hjá Reykjavík er.

„Við teljum okkur vera með það góða vetrarþjónustu og þróun dekkja hefur verið þannig að þetta er bara barn síns tíma, miðað við þær afleiðingar sem nagladekk hafa bæði fyrir viðhald gatna og heilsufar fólks með þessu blessaða svifryki,“ segir Hjalti. „Það myndast rosalega sjaldan, ef einhvern tímann, þær aðstæður að nagladekk muni gagnast. Nagladekk gagnast ekkert nema í ákveðinni tegund af hálku,“ bætir hann við.

Hjalti segir að það sé margbúið að sýna fram á í rannsóknum að nagladekk hafi slæm áhrif á yfirborð gatna og þeyti upp svifryki. Svifryksmengun er hitamál í borginni á hverju ári og segir í skýrslu Vegagerðarinnar fyrr á þessu ári að það þurfi að fækka nagladekkjum í umferðinni til muna ef markmið stjórnvalda um að svifryk fari aldrei yfir heilsuverndarmörk eigi að nást. Um 42 prósent bíla á höfuðborginni eru á negldum dekkjum, samkvæmt Vegagerðinni.

„Reykjavíkurborg er búin að vera að keyra áróður gegn nagladekkjum undanfarin ár vegna þess að þetta er svo margþætt mál, um hvernig þau hafa áhrif út í umhverfið: svifryk, heilsa og slíkt,“ segir Hjalti.

Nagladekk eru bönnuð í fjölmörgum Evrópulöndum eins og Búlgaríu, Þýskalandi, Austurríki, Tékklandi, Póllandi og Ungverjalandi, svo dæmi séu tekin. Fjölmargar borgir og þó nokkur sveitarfélög í Evrópu hafa einnig bannað notkun á nagladekkjum. Þá hafa fimm ríki Bandaríkjanna einnig bannað nagladekk.

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, starfandi samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir að Reykjavíkurborg vilji gera vel í loftslagsmálum og fara vel með þau verðmæti sem liggi í götum borgarinnar.

Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að umferðarlögunum verði breytt þannig að Reykjavíkurborg geti sett takmarkanir á nagladekk innan borgarmarka. Guðbjörg segir að ekki sé gefið svigrúm í lögunum til að gera takmarkanir á notkun nagladekkja á ákveðnum svæðum eða heimila gjaldtöku.

„Í þessu samhengi má horfa til Oslóar en þeir eru með gjaldtöku á nöglunum þannig að þú getur keypt passa og komið í borgina og verið til dæmis yfir helgi og þá greiðirðu bara ákveðið gjald fyrir það,“ segir Guðbjörg Lilja. „Það hefur verið þróunin í mörgu öðru, að menn greiða fyrir það sem þeir nota.“