Árleg Vetrarhátíð í Reykjavík hefst í dag og stendur til 4. febrúar. Hátíðin fer fram í sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Hátíðin var fyrst haldin árið 2002 og er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2019 sem Vetrarhátíð er haldin með hefðbundnu sniði.

Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar í ár, sem eru rúmlega 150 talsins og innihalda meðal annars sundlauganótt og safnanótt, auk ljósalistar.

Á sundlauganótt er lengd opnun í öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu með fjölda viðburða, og frítt inn. „Þetta er skemmtileg leið til að sjá sundlaugina í nýju ljósi,“ segir Guðmundur Birgir Halldórsson, viðburðastjóri Vetrarhátíðar, í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut.

Safnanótt er á föstudeginum frá 18–11. Frítt inn á rúmlega 40 söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu. „Ég hef oft talað um að þetta sé skemmtilegt tækifæri fyrir fjölskyldur að fara með yngri börnin og unglingana,“ segir viðburðastjórinn.

Setningarhátíð Vetrarhátíðar er fyrir framan Hallgrímskirkju klukkan 19, þegar kveikt er á listaverki eftir Sigurð Guðjónsson. „Þar opnast ljósaslóð sem liggur um miðborg Reykjavíkur,“ segir Guðmundur og mælir með því að fólk gangi leiðina niður Skólavörðustíg og niður að Ráðhúsi Reykjavíkur, og njóti listaverka á leiðinni.