Viðbúnaður Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður með sama hætti og verið hefur þrátt fyrir vetrarfrí grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Um 15 þúsund nemendur eru í grunnskólum Reykjavíkur og þá er einnig vetrarfrí í grunnskólum Hafnarfjarðar og mörgum framhaldsskólunum. Það má því búast við að ansi mörg ungmenni muni hittast og jafnvel gera sér glaðan dag.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir hafa beint þeim tilmælum til fólks að halda sig sem mest heima, ferðast ekki að óþörfu og forðast hópamyndanir í heimahúsum vegna faraldursins.

Í svari lögreglunnar er minnt á að almenningur sæti ekki ferðabanni en áfram verði tekið á brotum á reglugerð um sóttvarnaráðstafanir. „Vegna hópamyndana og ferðalaga þá hefur verið höfðað til skynsemi fólks og það hefur gefist vel.

Rétt er að hafa í huga að almenningur sætir ekki ferðabanni, en afskipti eru höfð af þeim sem hefur verið gert að vera í sóttkví eða einangrun og því verður fram haldið. Tekið verður á brotum á reglugerðum um sóttvarnaráðstafanir með sama hætti og áður,“ segir í svari lögreglunnar.