Í dag má búast við norð­lægri átt og 10 til 15 metrum á sekúndu en gengur í norð­vestan 18 til 25 á Suð­austur­landi og Aust­fjörðum eftir há­degi. Él norð­austan- og austan­lands framá kvöld en bjart­viðri sunnan heiða.

Í hug­leiðingum veður­fræðings Veður­stofunnar kemur fram að lægðin og snjó­komu­bakkinn sem henni fylgdi sé á leiðinni austur og fjar­lægist þá landið en skilur eftir hjá okkur norðan strekking eða all­hvassan vind. En á Suð­austur­landi og á Aust­fjörðum verður norð­vestan hvass­viðri eða stormur. Eftir ofan­komu næturinnar verður víða bjart­viðri eða létt­skýjað en þó verður nokkur él norð­austan- og austan­lands fram á kvöld.

Í nótt lægir vestan­til en á­fram verður nokkur strengur austast á morgun.

Á vef Vega­gerðarinnar kemur fram að það sé vetrar­færð og að það sé verið að hreinsa vegi eftir nóttina. Viða er hálka, snjó­þekja eða skaf­renningur og þæfings­færð víða. Ó­fært er á Möðru­dals­ör­æfi, við Biskups­háls, en unnið er að mokstri. Einnig er ó­fært um bæði Þröskulda og Kletts­háls vegna snjós á Vest­fjörðum, en unnið er að mokstri.

Hægt er að fá nánari upp­lýsingar um veður á vef Veður­stofunnar og færð vega á vef Veður­stofunnar.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á laugar­dag:

Suð­vestan 5-10 m/s. Dá­lítil snjó­koma eða rigning um landið vestan­vert með hita um eða yfir frost­marki, en bjart­viðri austan­til og frost 0 til 6 stig.

Á sunnu­dag:

Aust­læg eða breyti­leg átt og slydda eða snjó­koma sunnan- og vestan­lands en annars él. Hiti um frost­mark.

Á mánu­dag:

Fremur hæg norð­aust­læg átt og létt­skýjað en él með norður- og austur­ströndinni. Hiti 0 til 6 stig að deginum.

Á þriðju­dag:

Norð­austan­átt með snjó­komu en þurrt að kalla suð­vestan­til. Heldur kólnandi.

Á mið­viku­dag:

Út­lit fyrir norðan­átt með snjó­komu eða éljum um landið norðan­vert en björtu veðri syðra. Kalt í veðri.