Mikið er um öndunarfærasýkingar og aðrar umgangspestir að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þetta gerist oft þegar það hefur verið lítið um sýkingar einn veturinn, þá verður meira veturinn á eftir,“ segir hann.
Þar vísar Óskar til þess að lítið hefur verið um umgangspestir síðan Covid-faraldurinn hófst, hann segist eiga von á því að veturinn fram undan verði „svolítill pestarvetur“.
„Mest eru þetta almennar öndunarfærasýkingar en það má gera ráð fyrir því að einhver þeirra sem eru veik heima séu með Covid. Það eru nokkrir inniliggjandi á sjúkrahúsinu núna með Covid og það gefur alltaf til kynna að margfalt fleiri séu smitaðir,“ segir Óskar.
Þá segir hann að „vetrarælupestin“ sé komin en að samkvæmt hans bestu vitund hafi ekki greinst tilfelli inflúensu á heilsugæslunni. Hann hvetji þó sem flesta til að þiggja bólusetningu gegn inflúensu.
„Sérstaklega þau sem hafa náð 60 ára aldri og þau sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, en það er gagn í því fyrir alla að sleppa við að fá inflúensu,“ segir Óskar.