Mikið er um öndunar­færa­sýkingar og aðrar um­gangs­pestir að sögn Óskars Reyk­dals­sonar, for­stjóra Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins. „Þetta gerist oft þegar það hefur verið lítið um sýkingar einn veturinn, þá verður meira veturinn á eftir,“ segir hann.

Þar vísar Óskar til þess að lítið hefur verið um um­gangs­pestir síðan Co­vid-far­aldurinn hófst, hann segist eiga von á því að veturinn fram undan verði „svo­lítill pestar­vetur“.

„Mest eru þetta al­mennar öndunar­færa­sýkingar en það má gera ráð fyrir því að ein­hver þeirra sem eru veik heima séu með Co­vid. Það eru nokkrir inni­liggjandi á sjúkra­húsinu núna með Co­vid og það gefur alltaf til kynna að marg­falt fleiri séu smitaðir,“ segir Óskar.

Þá segir hann að „vetrarælu­pestin“ sé komin en að sam­kvæmt hans bestu vitund hafi ekki greinst til­felli in­flúensu á heilsu­gæslunni. Hann hvetji þó sem flesta til að þiggja bólu­setningu gegn in­flúensu.

„Sér­stak­lega þau sem hafa náð 60 ára aldri og þau sem eru með undir­liggjandi sjúk­dóma, en það er gagn í því fyrir alla að sleppa við að fá in­flúensu,“ segir Óskar.