Hluta Vesturlandsvegar verður lokað frá klukkan eitt í dag í þágu framhaldsrannsóknar vegna banaslyss, sem varð norðan Grundarhverfis í gær. Tveir létust eftir að mótorhjól og húsbíll lentu í árekstri nýmalbikuðum vegarkafla.

Áætlað er að rannsóknin taki eina til tvær klukkustundir. Um er að ræða vegkaflann á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarvegar. Lokunin hefur ekki áhrif á umferð til og frá Grundarhverfi, en öðrum er bent á hjáleið um Kjósarskarðsveg.

Varað við við vegarkaflanum sem um ræðir á Facebook hópnum Kjalarnes, færð og veður áður en slysið átti sér stað. Þar lýstu margir því að bíll þeirra hafi skautað á hálu malbikinu og að vegarkaflinn væri beinlínis „dauðagildra.“

Vegagerðin gerir nú úttekt á malbikinu og rannsakar hvað hefðu betur mátt fara. Þá hafa Sniglar boðað mótmæli við Vegagerðina á morgun.