Vesturbæingar eru orðnir langþreyttir á framkvæmdum sem eiga sér stað við Framnesveg en umræða hefur skapast um málið á facebook síðu Vesturbæjarins.

Málið snýst helst um þann frágang sem viðhafður er í framkvæmdunum en stór hola hafði myndast fyrir framan járnbrú sem gera átti ökumönnum kleyft að keyra inn á Hringbrautina.

Önnur brú liggur einnig á svæðinu sem gerir fólki kleyft að keyra inn á Lágholtsveg frá Framnesvegi og telja margir íbúar að báðar brýrnar séu slysagildrur.

Svo virðist sem Reykjavíkurborg hafi þó hlustað á hluta af þeim kvörtunum sem íbúar Vesturbæjar lögðu fram en búið er að fylla upp í holuna við Hringbraut til bráðabirgða.

Búið er að fylla upp í holuna við Hringbraut en þó einungis til bráðabirgða.
Mynd/aðsend

Fjölmiðlamaðurinn Sóli Hólm vakti athygli á málinu fyrr í vikunni en hann gagnrýndi harðlega hversu lengi framkvæmdir hafa staðið.

„Ég ber rosa mikla virðingu fyrir verktöku, og jarðverktöku sérstaklega. Ég hef verið jarðverktaki á lóðinni heima hjá mér, og ég veit nákvæmlega að þetta tekur tíma. En þetta er búið að taka alltof fokking langan tíma,“ sagði hann á Instagram síðu sinni á sunnudaginn.

Sprengdi dekkin daginn fyrir brúðkaup

Í umræðunni deilir Viktoría Hermannsdóttir, fjölmiðlakona og eiginkona Sóla einnig reynslu sinni en hún varð fyrir því óhappi að gata dekkin sín á brúnni sem gerir fólki kleyft að keyra inn Lágholtsveginn frá Framnesvegi.

„Skar dekkið á mínum bíl þarna á föstudagskvöldið! Stórhættulegt,“ segir hún en atvikið gerðist deginum fyrir brúðkaup þeirra hjóna og olli því talsverðum vandræðum.

Sú brú stendur þó enn óhreyfð þrátt fyrir kvartanir íbúa.

Fjölmiðlafólkið Sóli Hólm og Viktoría Hermannsdóttir hafa verið dugleg að vekja athygli á málinu en þau giftu sig nú um helgina.
Fréttablaðið/Stefán

Rafmagnið tekið af heimilinu

Nokkrir íbúar benda á að þeir sjái sjaldan aðila við vinnu á staðnum sem eflaust útskýri lengdina á framkvæmdunum.

Það heyrir til undatekninga að sjá menn að vinna á þessu svæði - þessar framkvæmdir búnar að vera allt of lengi“ segir Helga Bjarnason íbúi í Vesturbænum

Margrét Helga Erlingsdóttir fréttakona á fréttastofu Stöðvar 2 lagði einnig orð í belg:

„Ég legg það nú alls ekki í vana minn að vera kvartgjörn en þetta ástand er að gera mig vitlausa. Þeir náðu að saxa í tvennt rafmagnið að heimilinu og það var fyrir einhverja guðslukku að ég er hjá Securitas að ég fæ sms um að rafmagnið hefði skyndilega farið af og rafvirkinn minn komst að þessu. Ég var nýfarin til útlanda á þessum tíma í sumar og þetta hefði orðið meiriháttar vatnstjón ef ég hefði ekki verið hjá Securitas og komist að þessu,“ segir hún og tekur einnig fram „Ég hef líka alveg meiriháttar áhyggjur af skólabörnunum á þessu svæði sem þurfa að fara yfir götuna til að komast leiðar sinnar því þetta ruglástand verður til þess að stórir sem smáir bílar þurfa að juða fram og aftur til að komast yfir þessa járnbrú án þess að bíllinn skemmist,“ segir hún