Það var fullt út úr dyrum í útibúi Brauð og co á Melhaga árla morguns þegar bolludagsbollurnar seldust upp í bakaríinu. Vesturbæingar lýstu margir hverjir yfir vonbrigðum sínum á samfélagsmiðlum og ræddi Margrét Hugrún Gústavsdóttir, blaðamaður, við Fréttablaðið um þá rafmögnuðu stemmningu sem ríkti í bakaríinu klukkan 8:10 í morgun.
Spennuþrungin stund í röðinni
„Þau voru upphaflega með sex tegundir af allskyns bollum,“ segir Margrét. Hún lýsir því að hafa fylgst með starfsfólki bakarísins strika út eina tegundina á fætur annarri á meðan hún stóð í röðinni þar til allt var nálægt því að klárast. Þegar röðin var komin að Margréti pantaði hún bollu en var svo upplýst um það skömmu seinna að allt væri búið.
„Það voru ömurleg vonbrigði á sjálfan bolludaginn að fá ekki bollu. Það var fullt af fólki sem var svekkt þarna.“ Þá hafi fólk furðað sig á því að þetta kæmi fyrir á bolludaginn af öllum dögum. Margrét hélt heim til að kjarna sig eftir fyrstu heimsókn sína í bakaríið en býst við að gera aðra atlögu þegar líður á daginn.

15 þúsund bollur bakaðar
Bakari Brauð og Co á Frakkastíg sagði í samtali við Fréttablaðið að fólk þyrfti ekki að örvænta þar sem aðeins væri um að ræða fyrstu bollusendingu dagsins og nýjar bollur væru væntanlegar í öll útibú Brauð og co á hverri stundu.
„Við bökuðum 15 þúsund bollur í morgun en fyrsti skammturinn seldist upp mjög hratt.“ Morguninn var undirlagður í að afgreiða bollur sem höfðu verið pantaðar fyrir fram og því hafi aðeins tekið rúma klukkustund að seljast upp í einhverjum bakaríum.
Annasamasti dagur ársins
„Það er sett á þær í Kópavoginum og síðan keyra bílstjórarnir okkar með þær hring eftir hring í öll sjö útibú okkar.“ Allar hendur leggjast á eitt á þessum degi ársins og svakalegt keyrsla er á öllum stöðum.
„Þetta er líklega annasamasti dagur ársins í bakaríum Brauð og co.“ Bakarinn vonast að bollurnar 15 þúsund endist fram eftir hádegi og hvetur bolluunnendur til að bragða á bollunum áður en þær klárast á ný.