Það var fullt út úr dyrum í úti­búi Brauð og co á Mel­haga árla morguns þegar bollu­dags­bollurnar seldust upp í bakaríinu. Vestur­bæingar lýstu margir hverjir yfir von­brigðum sínum á sam­fé­lags­miðlum og ræddi Margrét Hug­rún Gústavs­dóttir, blaða­maður, við Frétta­blaðið um þá raf­mögnuðu stemmningu sem ríkti í bakaríinu klukkan 8:10 í morgun.

Spennu­þrungin stund í röðinni

„Þau voru upp­haf­lega með sex tegundir af alls­kyns bollum,“ segir Margrét. Hún lýsir því að hafa fylgst með starfs­fólki bakarísins strika út eina tegundina á fætur annarri á meðan hún stóð í röðinni þar til allt var ná­lægt því að klárast. Þegar röðin var komin að Margréti pantaði hún bollu en var svo upp­lýst um það skömmu seinna að allt væri búið.

„Það voru ömur­leg von­brigði á sjálfan bollu­daginn að fá ekki bollu. Það var fullt af fólki sem var svekkt þarna.“ Þá hafi fólk furðað sig á því að þetta kæmi fyrir á bollu­daginn af öllum dögum. Margrét hélt heim til að kjarna sig eftir fyrstu heim­sókn sína í bakaríið en býst við að gera aðra at­lögu þegar líður á daginn.

Vegan bolla Brauð og Co hefur slegið í gegn.
Fréttablaðið/Ernir

15 þúsund bollur bakaðar

Bakari Brauð og Co á Frakka­stíg sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að fólk þyrfti ekki að ör­vænta þar sem að­eins væri um að ræða fyrstu bollu­sendingu dagsins og nýjar bollur væru væntan­legar í öll úti­bú Brauð og co á hverri stundu.

„Við bökuðum 15 þúsund bollur í morgun en fyrsti skammturinn seldist upp mjög hratt.“ Morguninn var undir­lagður í að af­greiða bollur sem höfðu verið pantaðar fyrir fram og því hafi að­eins tekið rúma klukku­stund að seljast upp í ein­hverjum bakaríum.

Anna­samasti dagur ársins

„Það er sett á þær í Kópa­voginum og síðan keyra bíl­stjórarnir okkar með þær hring eftir hring í öll sjö úti­bú okkar.“ Allar hendur leggjast á eitt á þessum degi ársins og svaka­legt keyrsla er á öllum stöðum.

„Þetta er lík­lega anna­samasti dagur ársins í bakaríum Brauð og co.“ Bakarinn vonast að bollurnar 15 þúsund endist fram eftir há­degi og hvetur bollu­unn­endur til að bragða á bollunum áður en þær klárast á ný.