„Ég er hissa á því að þetta vekji svona mikla athygli,“ segir Friðbert Friðbertsson, nýr eigandi hússins að Víðimel, sem áður hýsti kínverska sendiráðið léttur í bragði í samtali við Fréttablaðið.
Það er óhætt að fullyrða að mikil gleði ríki yfir nýjum eiganda hússins og þeim endurbótum á húsinu sem Friðbert stendur nú í. Á Facebook hópi Vesturbæinga birtir Eva Hrönn Steindórsdóttir mynd af húsinu þar sem hún fagnar því að húsið fái loksins andlitslyftingu.
Rúmlega 230 manns bregðast við færslu Evu í hópnum og lýsa allir yfir mikilli ánægju í ummælum. Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá voru íbúar orðnir langþreyttir á umgengni um húsið eftir að kínverska sendiráðið færði starfsemi sína í Borgartún.
Árið 2017 sögðust nágrannar meðal annars hafa séð rottur skríða inn um glugga hússins og þá voru kettir sagðir hafa verið tíðir gestir.
Ber mikla virðingu fyrir sögu hússins
Friðbert Friðbertsson, forstjóri bílaumboðsins Heklu, er nýr eigandi hússins. Hann var staddur í húsinu og á fullu í framkvæmdum þegar Fréttablaðið náði af honum tali í dag. Hann ætlar sér að flytja inn í húsið, á endanum.
„Já, við erum bara að taka þetta aðeins í gegn. Ég er með hressan hóp hérna af strákum úr hverfinu sem eru brjálaðslega duglegir og hrikalega flottir,“ segir Friðbert. Hann viðurkennir að mikil vinna sé framundan.
„Jú jú, það þarf að taka þetta svolítið í gegn. Þetta eru töluverðar framkvæmdir og komið að viðhaldi á mörgum þáttum hússins. Þetta er náttúrulega hús sem er byggt 1945 svo það er kominn tími á viðhald,“ segir Friðbert sem segist spurður bera mikla virðingu fyrir sögu hússins.
Húsið var á árum áður nefnt „Kanslarahöllin“ og var það hannað af Einari Sveinssyni arkitekt. Samkvæmt fasteignaskrá er húsbyggingin 724,5 fermetrar en lóðin 810 fermetrar að stærð.
„Einar Sveinsson er auðvitað frumkvöðull í íslenskri byggingarlist og svo skipulagði hann auðvitað Vesturbæinn. Þannig það þarf að líta sæmilega eftir þessu,“ segir Friðbert. Hann býst ekki við neinum meiriháttar útlitsbreytingum á húsinu.
