„Ég er hissa á því að þetta vekji svona mikla at­hygli,“ segir Frið­bert Frið­berts­son, nýr eig­andi hússins að Víði­mel, sem áður hýsti kín­verska sendi­ráðið léttur í bragði í sam­tali við Frétta­blaðið.

Það er ó­hætt að full­yrða að mikil gleði ríki yfir nýjum eig­anda hússins og þeim endur­bótum á húsinu sem Frið­bert stendur nú í. Á Face­book hópi Vestur­bæinga birtir Eva Hrönn Stein­dórs­dóttir mynd af húsinu þar sem hún fagnar því að húsið fái loksins and­lits­lyftingu.

Rúm­lega 230 manns bregðast við færslu Evu í hópnum og lýsa allir yfir mikilli á­nægju í um­mælum. Líkt og Frétta­blaðið hefur áður greint frá voru í­búar orðnir lang­þreyttir á um­gengni um húsið eftir að kín­verska sendi­ráðið færði starf­semi sína í Borgar­tún.

Árið 2017 sögðust ná­grannar meðal annars hafa séð rottur skríða inn um glugga hússins og þá voru kettir sagðir hafa verið tíðir gestir.

Ber mikla virðingu fyrir sögu hússins

Frið­bert Frið­berts­son, for­stjóri bíla­um­boðsins Heklu, er nýr eig­andi hússins. Hann var staddur í húsinu og á fullu í fram­kvæmdum þegar Frétta­blaðið náði af honum tali í dag. Hann ætlar sér að flytja inn í húsið, á endanum.

„Já, við erum bara að taka þetta að­eins í gegn. Ég er með hressan hóp hérna af strákum úr hverfinu sem eru brjálaðs­lega dug­legir og hrika­lega flottir,“ segir Frið­bert. Hann viður­kennir að mikil vinna sé fram­undan.

„Jú jú, það þarf að taka þetta svo­lítið í gegn. Þetta eru tölu­verðar fram­kvæmdir og komið að við­haldi á mörgum þáttum hússins. Þetta er náttúru­lega hús sem er byggt 1945 svo það er kominn tími á við­hald,“ segir Frið­bert sem segist spurður bera mikla virðingu fyrir sögu hússins.

Húsið var á árum áður nefnt „Kanslara­höllin“ og var það hannað af Einari Sveins­­syni arki­­tekt. Sam­­kvæmt fast­­eigna­­skrá er hús­byggingin 724,5 fer­­metrar en lóðin 810 fer­­metrar að stærð.

„Einar Sveins­son er auð­vitað frum­kvöðull í ís­lenskri byggingar­list og svo skipu­lagði hann auð­vitað Vestur­bæinn. Þannig það þarf að líta sæmi­lega eftir þessu,“ segir Frið­bert. Hann býst ekki við neinum meiri­háttar út­lits­breytingum á húsinu.

Fréttablaðið/Skjáskot