Mikillar reiði hefur gætt vegna fréttaflutnings af landsvæði sem eigendur þriggja einbýlishúsa á Einimel i Vesturbæ Reykjavíkur hafa lagt undir sig í leyfisleysi.

Umræða um málið fer nú fram í hópi Vesturbæinga á Facebook þar sem netverjar lýsa yfir reiði sinni vegna málsins og stinga jafnvel upp á því að almenningur taki málin í eigin hendur og klippi á girðingar sem eigendurnir hafa reist. 

Einn íbúa segir hins vegar lóðirnar vera í fóstri og málið sé byggt á misskilning.

„Sérstök tegund af frekju“

Fréttablaðið greindi frá því í gær að eigendur einbýlishúsa við Einimel hefðu í heimildarleysi lagt undir sig land utan við stóran landskika við mörk lóða sinna á útivistarsvæði vestan megin við Vesturbæjarsundlaug.

Í Facebook-hópunum Vesturbærinn, sem nær níu þúsund eru meðlimir að, fer nú fram umræða um það hvort borgarbúar eigi ekki að taka málin í sínar hendur og rífa niður girðingarnar, sem eigendur húsanna hafa sem fyrr segir reist í kringum garðana. Í gærkvöldi tók einn Vesturbæingur sig til og deildi frétt um málið, með uppástungu um að gengið verið í verkið og girðingarnar einfaldlega rifnar niður. 

Margir virðast vera á sama máli og hefur fjöldi lýst yfir stuðningi sínum við færsluna. Þá stingur einn netverji upp á því að gengið verði til verksins síðdegis í dag. 

„Þetta er alveg sérstök tegund af frekju,“ segir annar meðlimur hópsins, meðan sá þriðji segir lóðirnar hreinan stuld. Einhverjir koma þó eigendunum til varnar og segja girðingarnar hafa staðið þarna síðan 1950 og fréttaflutning byggðan á rangfærslum. 

Segir um sé að ræða smá skika við enda lóðarinnar

Í skriflegu svari Björns Inga Edvaldssonar, verkefnastjóra hjá Reykjavíkurborg, sem lagt var fram í borgarráði, segir að nokkuð ljóst sé að eigendur hafi tekið sér land fyrir utan sín lóðarmörk. 

„Það er klárlega í andstöðu við gildandi deiliskipulag og liggja engar heimildir fyrir um þessa landtöku. Erindi hafa verið tekin fyrir hjá skipulagsyfirvöldum þar sem umræddir lóðarhafar hafa óskað eftir stækkun sinna lóða eða að taka umrætt landsvæði í fóstur, en þeim hefur alltaf verið svarað neikvætt.“ 

Bessí Jóhannsdóttir, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er einn eigendanna og segir hún umræddar viðbætur við lóðirnar vera í svokölluðu fóstri hjá eigendum viðkomandi húsa.

„Þetta er gömul saga frá því hér var bóndabýli. Við höfum annast um viðbót við lóðina okkar. Lóðin hjá mér lítur út fyrir að vera stærri en hún er í raun og veru,“ sagði Bessí í samtali við Fréttablaðið í gær. „Þetta er bara smáskiki á enda lóðarinnar. En það er nóg rými fyrir aftan Vesturbæjarlaugina og það er engum meinaður aðgangur að því svæði.“ 

Skildi ekki áhyggjur húsfreyju í fyrstu 

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni í gær þar hann segir það athyglisvert þegar fólk slær eign sinni á almenningsrými og gerir að sinni einkalóð. 

Þá tekur hann í sama streng og netverjar sem segja málið anga af frekju. Jón á sjálfur hund og hefur nýtt sér svæðið til að viðra gæludýrið. 

Í færslu sinni segist hann hafa farið á túnið nýlega til þess að viðra hvutta þegar húsfreyja úr einu húsinu kom ábúðarfull á svip úr húsinu og horfði á hann rannsakandi með hendur á mjöðmum. Þá kveðst Jón ekki séð annan kost vænstan en að hundskast burt. „Ég skil ekki alveg áhyggjur hennar enda er lóðin hennar afgirt með hárri girðingu. En ég skil núna að hún telur sig líklega eiga tilkall til alls svæðisins eða vera einhvers konar verndari þess amk,“ ritaði Jón.