Blaðamenn Associated Press fengu nýlega aðgang að stærstu fangabúðunum í kínverska héraðinu Xinjiang, Urumqi nr. 3, þar sem fjölda fólks af þjóðerni Úígúra er haldið föngnum. Var þetta í fyrsta skipti sem fulltrúum vestræns fjölmiðils var hleypt inn í fangabúðir Kínverja í héraðinu. Kínverskir embættismenn neituðu að greina frá því hve margir fangar eru í búðunum en fréttamönnunum taldist svo til að hægt væri að vista þar að minnsta kosti 10.000 manns út frá gervihnattarmyndum og stærð fangaklefanna sem þeir sáu. „Það voru engin tengsl milli vistunarbúðanna okkar og þjálfunarbúðanna,“ sagði Zhao Zhongwei, framkvæmdastjóri öryggisskrifstofunnar í Urumqi, við fréttamenn AP. „Þær hafa aldrei verið hér um slóðir.“

Hinar svokölluðu þjálfunarbúðir Kínverja í Xinjiang eru fangabúðir þar sem fólk af minnihlutaþjóðerni, sérstaklega Úígúrar, hefur verið fangelsað án ákæru eða málsmeðferðar og sætir endurhæfingu til þess að gera það tryggara kínverskum stjórnvöldum. Samkvæmt frétt AP báru fangabúðirnar þess merki að hafa áður verið þjálfunarbúðir þrátt fyrir að embættismenn þar hafni því að svo hafi verið. Meðal annars sáust gömul skilti þar sem hugtakið „þjálfunarbúðir“ var notað. Fréttamennir nir sáu engin ummerki um pyntingar eða barsmíðar í búðunum en tóku fram að f leiri byggingar hefðu verið í kringum búðirnar og að embættismennirnir hefðu ekki sagst vita hvað þar væri.