Í dag er spáð vestlægri átt 3 til 8 metrum á sekúndu, en austan 8 til 13 á Norðausturlandi. Rigning með köflum og hiti 1 til 7 stig, en snjókoma og vægt frost austanlands.

Í kvöld og á morgun er spáð norðaustan 5 til 13 metrum á sekúndu en hvassast norðvestan til á landinu. Búast má við éljagangi og frosti á bilinu 0 til 6 stig, en bjartviðri og hiti 0 til 4 stig suðvestanlands.

„Núna í morgunsárið er fremur hæg vestlæg átt og rigning víða um land, en snjókoma á norðausturhluta landsins. Er líður á daginn dregur úr úrkomu en í kvöld snýst í norðaustanátt með kulda og éljum um

norðanvert landið en birtir heldur til. Næstu daga er síðan útlit fyrir áframhaldandi norðlægar áttir og kulda á landinu með ofankomu norðan til en bjartvirði syðra,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan 8-15 m/s og él, en þurrt að kalla sunnan til. Frost 0 til 7 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og þurrt og bjart að mestu, en skýjað og dálítil él um landið austanvert. Áfram kalt í veðri og talsvert næturfrost inn til landsins.

Á föstudag og laugardag:

Útlit fyrir norðaustlæga eða breytilega átt með él á víð og dreif og fremur kalt í veðri.

Færð á vegum og Sæbraut lokuð

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru vegir víðast hvar á landinu greiðfærir, þó er hálka eða hálkublettir á nokkrum vegum, helst á Norðaustur- og Austurlandi.

Þá er Sæbraut lokuð í dag vegna kvikmyndatöku milli Snorrabrautar og Hörpu, einnig verður Kalkofnsvegur lokaður að Geirsgötu frá klukkan 7:00 til 15:00.