Arnarfirði má líkja við konfektkassa fullan af gullmolum. Sjórinn er blágrænn og liturinn fer vel við hvítan fjörusand sem gefur þeim á erlendum sólarströndum ekkert eftir. Þessi djúpi fjörður er girtur tignarlegum fjöllum nema í vestur, en þar fær miðnætursól í staðinn að spegla sig í haffletinum á fallegum sumarkvöldum. Fjallaflóran er sérlega fjölbreytt en við sunnanverðan Arnarfjörð eru stuttir en snarbrattir Ketildalir. Við botn fjarðarins er síðan magnaður fjallgarður, Hornatær, og aðeins norðar útsýnisfjallið Lómfell. Upp af norðanverðum Arnarfirði eru ekki síðri gullmolar, Tjaldanesfjöllin, en þau sjást einnig vel úr Dýrafirði. Þetta er gömul megineldstöð með fjölda píramídalaga tinda sem minna á indíánatjöld. Tindarnir sem flestir eru rúmlega 800 m á hæð standa þétt og viðurnefnið Vestfirsku Alparnir því viðeigandi. Nöfnin Baulhúsahyrna, Krákadalshyrna og Breiðhorn skírskota til lögunar fjallanna, en lengra í vestur er flatari tindur og hæsti tindur Vestfjarða, Kaldbakur (998 m).

Annar lægri tindur stelur þó athyglinni, en hann er brattastur og hæstur indíánatjaldanna. Merkilegt nokk er nafn hans á reiki en það á ekki við um kletta í norðurhlíðum hans, Tröllakrika. Þar ku sólin aldrei ná að skína og því vinsæll dvalarstaður trölla. Það er ógleymanlegt að koma í Tjaldanesdal og upplifa fjallaleikhúsið sem þar er í boði. Snarbrött fjöll umkringja dalinn á alla kanta og eftir dalbotninum renna stríðar bergvatnsár. Frá Hrafnseyri er ekinn jeppaslóði í áttina að Lokinhömrum uns komið er að mynni Tjaldanessdals. Þar er slóði inn dalinn sem hægt er að aka en er skemmtilegra að ganga. Að sumri til er skynsamlegt að halda sig í botni dalsins því brött fjöllin eru þakin skriðum sem erfitt er að fóta sig í. Á veturna geta snjóflóð verið varasöm og því best að leggja til atlögu síðla vors þegar brekkur eru þaktar mýkri snjó. Á mannbroddum er hægt að þræða sig upp austurhlíðar miðlægu Hyrnunnar, en af oddmjóum tindinum býðst einstakt útsýni yfir Arnarfjörð og Snæfellsnes. Í vestri blasir Kaldbakur við og í norður sést ofan í Dýrafjörð og upp á hásléttu Vestfjarðakjálkans. Í sömu ferð er tilvalið að koma við á Lokinhömrum, en þar sem hluti vegarins liggur niður í fjöru verður að sæta sjávarföllum. Annar valkostur er að ganga á Kaldbak upp úr Fossdal en sú ganga er flestum fær og tekur ekki nema hálfan dag.

Útsýnið af Tjaldanesfjöllum er einstakt – en þau eru ekki auðveld uppgöngu. Hér er horft suður í Ketildali en Snæfellsnes og Snæfellsjökul ber við himin. Mynd/TG
Horft til vesturs af einni af hyrnum Tjaldnesfjalla. Fyrir miðri mynd er Kaldbakur og Krákadalshyrna til hægri. Mynd/TG