Lokið er innritun nýnema í framhaldsskóla og er Verzlunarskóli Íslands enn vinsælasti framhaldsskóli landsins og er jafnvel enn vinsælli en í fyrra.

Alls sóttu rúm 95% útskrifaðra grunnskólanema þessa árs um skólavist eða 4077. 96% allra umsækjenda fengu inni í þeim skóla sem þeir völdu sem fyrsta eða annað val samkvæmt tilkynningu frá Menntamálastofnun. Líkt og undanfarin ár gafst nemendum kostur á að sækja um tvo skóla.

Verslunarskóli Íslands er sem fyrr segir langvinsælastur með 519 umsóknir í fyrsta vali um þau 341 sæti sem skólinn býður. Alls voru umsóknir 679 Menntaskólinn við Sund er næstvinsælastur og sóttu 305 nýnemar um í fyrsta vali þau 234 pláss sem eru þar í boði. Alls voru umsóknir í MS 617.

Tækniskólanum bárust 295 umsóknir sem fyrsta val en hann er sá menntaskóli sem getur tekið við flestum eða 340 nýnemum. Umsóknir í Tækniskólann voru alls 544. Umsóknir í Kvennaskólann voru alls 593 en 256 sóttu um hann sem fyrsta val sem er aukning frá því í fyrra. Skólinn tekur 225 nýnema. Laus pláss í Menntaskólann í Reykjavík eru 262 en 205 nemendur sótt um í hann sem fyrsta val. 49 sóttu um í Fjölbrautarskólann við Ármúla sem fyrsta val en hann getur tekið við 120 nýnemum.

165 nemendur fengu ekki skólavist í þeim skólum sem þeir höfðu óskað eftir í fyrsta eða annað val, rúm 4% umsækjenda. Menntamálastofnun vinnur að því að finna þeim nemendum skólavist í þriðja skóla og segir í tilkynningu að sú vinna gangi vel.

Í frétt á vef Verzlunarskóla Íslands kemur fram að enginn hafi komist inn sem var með lægra en B í öllum greinum sem tekið var tillit til. Matsferli VÍ sem er sagt eingöngu til að flýta fyrir úrvinnslu umsókna var þannig að einkunnir í íslensku og stærðfræði höfðu tvöfalt vægi. Síðan voru valdar tvær hæstu einkunnir úr tveiumar af fögunum enska, norðurlandamál, náttúrufræði og samfélagsfræði.

„í mörgum tilvikum var erfitt að velja á milli nemenda og var þá eftirfarandi haft í huga: kynjahlutfall, þátttaka í félagsstarfi, einkunnir í öðrum greinum eða annað sem gat skipt máli varðandi umsóknina,“ segir á vef Verzlunarskólans.