Sá orðrómur hefur kvisast út að bílaþáttunum The Grand Tour verði hætt eftir þriðju þáttaröð. Það eru fyrrum þáttastjórnendur Top Gear bílaþáttarins sem fara fyrir þessum þáttum, þ.e. þeir Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May. Nú standa yfir tökur á þriðju þáttaröð The Grand Tour, en enginn samningur hefur verið gerður um fjórðu þáttaröðina og í raun fátt sem bendir til þess að þeir verði framleiddir. 

Það gæti haft eitthvað með ákvörðunina að gera að Jeremy Clarkson hefur samþykkt að snúa aftur til þáttastjórnunar í spurningaþáttunum Who Wants To Be A Millionaire hjá ITV. Þar ætlar hann að stjórna 7 þáttum spurningaþáttarins í tilefni 20 ára afmælis hans. The Grand Tour er framleiddur af Amazon og sýndur á amazon.com en fyrirtækið fjárfesti fyrir 250 milljón dollara í gerð þáttanna og ef til vill hefur sú fjárfesting ekki skilað sér og þess vegna sé nú komið að leiðarlokum.