Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður Farsóttarhúsa, segir í höfn að útvega þeim úrræði sem þurfa núna um helgina.

Hins vegar hafi orðið fullt í þeim híbýlum sem Farsóttarhúsin hafi yfir að ráða undanfarna daga og erfitt sé að skipuleggja fram í tímann hversu mörg rými þarf að hafa til reiðu.

„Eins og staðan er núna [í gærkvöldi] er ég með 20 pláss laus en það er fljótt að fara. Af þeim sökum höfum við tryggt okkur aðgang að Hótel Stormi þar sem við höfum pláss fyrir áttatíu," segir Gylfi Þór.

„Álagið á Landspítalanum er mikið og af þeim sökum höfum við verið að taka við framlínustarfsmönnum sem þurfa að fara í einangrun. Þá er stöðugur fjöldi af ferðamönnum að koma hingað," segir Gylfi Þór enn fremur.

„Það sem er kannski verst núna er að það er erfitt að hafa yfirsýn yfir það hversu mörgum ferðamönnum við þurfum að taka við á hverjum tímapunkti. Að mínu mati þarf að fara að taka einhverja ákvörðun um hvernig eigi að hafa þetta til lengri tíma litið,“ bætir Gylfi Þór við.