„Mig langar að þakka öllum sem hafa tekið vel í ósk okkar um að halda ferðalögum í algjöru lágmarki næstu vikurnar," sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á daglegum fundi Almannavarna vegna kórónaveirufaraldursins í dag.

„Það er verið að aflýsa ferðum út um allt og það virðast allir ætla að taka þátt í því að ferðast innanhúss um komandi páska. Það er gott að finna það að fólk ætlar ekki að taka einhverja óþarfa sjénsa. Það ber að þakka fyrir það," sagði Víðir enn fremur.

„Þó að við séum í dag búin að vera að færa þessar jákvæðu fréttir þá er ennþá töluvert langt eftir. Ástandið kallar enn á það að við þurfum að sýna mikla þolinmæði. Við þurfum að halda áfram að passa vel upp á okkur, fá súrefnið með göngutúrum og hreyfa okkur á skynsamlegan máta," sagði yfirlögregluþjónninn.