Oddur Ævar Gunnarsson
Fimmtudagur 9. apríl 2020
13.30 GMT

Ís­lenskur eigin­maður konu sem er af er­lendu bergi brotin furðar sig á breytingum á lögum um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt sem tóku gildi þann 1. apríl síðast­liðinn. Eftir breytingarnar mun það taka eigin­konu hans fjögur ár í stað þriggja að verða ís­lenskur ríkis­borgari. Hann segir breytinguna afar í­þyngjandi fyrir hjónin og hafi komið fyrir­vara­laust. For­menn þing­flokka þeirra flokka sem studdu frum­varpið auk dóms­mála­ráð­herra svöruðu skrif­legum spurningum Frétta­blaðsins vegna málsins.

Breytingarnar voru sam­þykktar á Al­þingi þann 24. febrúar síðast­liðinn með stuðningi allra flokka utan Mið­flokksins og Flokks fólksins. Um er að ræða stjórnar­frum­varp Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur, dóms­mála­ráð­herra en frum­varpið var sam­þykkt með breytingum í alls­herjar-og mennta­mála­nefnd þann 17. febrúar.

Maðurinn, sem vill ekki láta nafn síns getið, vegna stöðu konu sinnar sem um­sækj­anda gagn­vart Út­lendinga­stofnun, furðar sig á þeim rök­stuðningi sem finna má í greinar­gerð frum­varpsins um breytinguna. Hjónin eiga saman ís­lenska dóttur og finnst honum það skjóta skökku við að að­stæðum fjöl­skyldunnar sé breytt með þessum hætti án alls sam­ráðs.

Í greinar­gerðinni, sem finna má á vef Al­þingis, kemur fram að frum­varpið hafi verið unnið í sam­ráði við Út­lendinga­stofnun. Segir þar að stofnunin hafi meðal annars bent á að bú­setu­skil­yrði séu hin sömu fyrir veitingu ó­tíma­bundins dvalar­leyfis og fyrir ríkis­borgara­rétt maka ís­lensks ríkis­borgara, það er þrjú ár.

„Sem hefur leitt til þess að um­sækj­endur geta lagt fram um­sóknir fyrir hvoru tveggja á sama tíma. Það þykir ekki alls kostar í sam­ræmi við til­gang laga um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt að heimild til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis og heimild til að óska eftir ríkis­borgara­rétti verði til jafn­hliða heldur miðist bú­setu­skil­yrði laganna við að við­komandi hafi fengið ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og haft það um nokkurt skeið áður en réttur til ríkis­borgara­réttar getur skapast,“ eins og segir orð­rétt á vef Al­þingis.

Á erfitt með að sjá tilganginn

Í sam­tali við Frétta­blaðið furðar eigin­maðurinn sig á breytingunni og rök­stuðningnum, það er að segja, að verið sé að sam­ræma lög um út­lendinga. Bendir hann á að breytingin sé afar í­þyngjandi fyrir þennan af­markaða þjóð­fé­lags­hóp.

„Þetta eru auð­vitað margar mjög ó­líkar breytingar á mjög mörgu. Þetta eru nokkrar breytingar sem eiga að miða að því að auka sam­ræmi í kerfinu, svo ein­hvern veginn kemur þetta bara inn í það.

Og það er rosa­lega erfitt að sjá hvaða til­gangi þetta á að þjóna, nema það að þetta er rök­stutt með því að það sé ekki í anda laganna að það sé hægt að sækja um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt á sama tíma og þú getur sótt um ó­tíma­bundið land­vistar­leyfi.

Ég skil ekki hvað vanda­málið er. Af hverju er það vanda­mál? Fyrir lög­gjafann er þetta kannski ein­hver sam­ræming sem er er rök­studd laga­tækni­lega en ekki efnis­lega en þetta hefur veru­lega í­þyngjandi á­hrif á líf fjölda fólks.“

„Ef sam­ráðs­ferli stjórn­valda nær ekki til þess fólks sem fyrir­hugaðar breytingar hafa á­hrif á er aug­ljós­lega eitt­hvað veru­lega bogið við það ferli.“

Breytingin hafi orðið án fyrirvara

Hann bendir á að fjögur ár séu langur tími og breytingin hafi í för með sér tölu­verða röskun á lífum er­lendra maka Ís­lendinga.

„Þetta er tölu­verður tími, segir maðurinn. „Ef þú setur þetta í sam­hengi er þetta 33 prósent lenging. Það sem þetta þýðir líka er að fólk þarf að fara auka­hring í gegnum land­vistar­leyfis­um­sóknar­ferlið, sem er enn einu sinni á ári. Það þýðir að það þarf að skila inn öllum við­eig­andi skjölum í enn eitt skiptið og það þarf að bíða alla þessa mánuði sem það tekur að af­greiða um­sóknirnar. Þetta er mjög í­þyngjandi fyrir þennan þjóð­fé­lags­hóp.“

Eigin­kona mannsins flutti til landsins á síðari hluta ársins 2018. Hún sótti svo um land­vistar­leyfi í kjöl­farið og það fékkst af­greitt um hálfu ári seinna og þá fer tíminn, í veitingu ís­lensks ríkis­borgara­réttar, að telja.

„Þetta hefur á­hrif á til dæmis ferða­plönin okkar því að á meðan þú ert á land­vistar­leyfi þá máttu bara vera fjarri landinu á­kveðið marga daga á ári. Þetta þýðir það að við þurfum að miða ferða­plönin okkar við eitt auka ár,“ segir maðurinn og setur í sam­hengi við það hve í­þyngjandi breytingin sé fyrir hjónin.

Þau hafi auk þess upp­lifað sem svo að breytingin hafi orðið fyrir­vara­laust.

„Þetta kom okkur að ó­vörum því við komumst bara að þessu þegar Út­lendinga­stofnun til­kynnti að breytingarnar hefðu þegar tekið gildi í byrjun mánaðar. Það sama gildir um annað fólk sem við þekkjum í sömu stöðu. Ef sam­ráðs­ferli stjórn­valda nær ekki til þess fólks sem fyrir­hugaðar breytingar hafa á­hrif á er aug­ljós­lega eitt­hvað veru­lega bogið við það ferli.“

Laga­tækni­leg at­riði að baki breytingunni

Í kjöl­far sam­talsins við eigin­manninn sendi Frétta­blaðið fjórar skrif­legar spurningar um frum­varpið á Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur, dóms­mála­ráð­herra, auk þing­flokks­for­manna VG, Sam­fylkingarinnar, Pírata, og Fram­sóknar­flokksins. Svör bárust frá öllum nema Þórunni Egils­dóttur, þing­flokks­for­manni Fram­sóknar.

  1. Hvaða efnis­legu rök eru fyrir þessum breytingum?
  2. Hvers vegna var tíminn lengdur um því sem nemur ár?
  3. Voru höfð sam­ráð við þann þjóð­fé­lags­hóp sem þessi laga­breyting tekur til­lit til, það er að segja, er­lenda ríkis­borgara sem bú­settir eru hér­lendis með ís­lenska maka?
  4. Á hvaða for­sendum sam­þykkti þinn þing­flokkur breytingarnar?

Í svörum sínum benda Ás­laug, auk Hönnu Katrínar Frið­riks­son, þing­flokks­for­maður Við­reisnar, Bjark­ey Ol­sen Gunnars­dóttir, þing­flokks­for­maður VG og Odd­ný G. Harðar­dóttir, þing­flokks­for­maður Sam­fylkingarinnar, á þau rök sem fram koma í greinar­gerð frum­varpsins.

Áslaug bendir á að reglur um bú­setu­tíma maka ís­lenskra ríkis­borgara hvað varðar um­sókn um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og um­sókn um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt hafi skarast með nýjum útlendingalögum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hvaða efnis­legu rök eru fyrir þessum breytingum?

„Sam­kvæmt lögum um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt skal um­sækjandi upp­fylla skil­yrði þess að fá út­gefið ó­tíma­bundið dvalar­leyfi af Út­lendinga­stofnun og hafa slíkt leyfi þegar sótt er um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt,“ skrifar Ás­laug Arna í svari til Frétta­blaðsins.

Hún bendir á að í tíð eldri laga um út­lendinga hafi makar ís­lenskra ríkis­borgara verið undan­þegnir því að sækja um slíkt leyfi og gátu þeir því sótt um ríkis­borgara­rétt eftir þriggja ára bú­setu hér­lendis frá giftingu.

„Við setningu nýrra laga um út­lendinga, nr. 80/2016, varð sú breyting að makar ís­lenskra ríkis­borgara eru ekki lengur undan­þegnir því að sækja um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi, en geta sótt um það eftir þriggja ára bú­setu hér á landi frá giftingu,“ skrifar Ás­laug.

„Frum­varpið var birt á sam­ráðs­gátt stjórn­valda á vefnum Is­land.is og al­menningi gefinn kostur á að koma með at­huga­semdir og á­bendingar en engar at­huga­semdir bárust.“

„Þetta leiddi til þess að reglur um bú­setu­tíma maka ís­lenskra ríkis­borgara hvað varðar um­sókn um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og um­sókn um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt sköruðust, þannig að um­sóknir um hvoru tveggja var hægt að leggja fram eftir þriggja ára bú­setu hér á landi. Það þykir ekki alls kostar í sam­ræmi við til­gang laga um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt að þessar heimildir verði til jafn­hliða heldur miðar bú­setu­skil­yrði ríkis­borgara­laga við að við­komandi hafi fengið ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og haft það um nokkurt skeið áður en réttur til ríkis­borgara­réttar getur skapast.“

Hvers vegna var tíminn lengdur um því sem nemur ár?

„Þar sem talin var þörf á breytingu á bú­setu­skil­yrðum í þessu til­viki vegna á­kvæða í lögum um út­lendinga um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi, sem sköruðust við lög um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt, var talið sann­gjarnt að gera einungis kröfu um að um­sækjandi hefði haft ó­tíma­bundið dvalar­leyfi í eitt ár áður en unnt væri að sækja um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt. Bú­setu­skil­yrði fyrir um­sókn þessa fólks um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt er þó mun styttra en gildir al­mennt um um­sókn um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt.“

Voru höfð sam­ráð við þann þjóð­fé­lags­hóp sem þessi laga­breyting tekur til­lit til, það er að segja, er­lenda ríkis­borgara sem bú­settir eru hér­lendis með ís­lenska maka?

„Frum­varpið var birt á sam­ráðs­gátt stjórn­valda á vefnum Is­land.is og al­menningi gefinn kostur á að koma með at­huga­semdir og á­bendingar en engar at­huga­semdir bárust.“

Á hvaða for­sendum sam­þykkti þinn þing­flokkur breytingarnar?

„Á grund­velli ofan­greindra sjónar­miða sem og vinnu í nefndinni (alls­herjar- og mennta­mála­nefnd) sem sendi um­sagnar­beiðnir, fékk um­sagnir sem og gesti fyrir nefndina til að ræða frum­varpið.“

Einungis fjórir aðilar hafi sent inn um­sögn um málið

Hanna bendir á að einungis fjórir af 24 aðilum sem málið varðar, hafi sent inn um­sögn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í svari sínu til Frétta­blaðsins vegna málsins segir Hanna Katrín Frið­riks­son, þing­flokks­for­maður Við­reisnar og fulltrúi í allsherjar-og menntamálanefnd, að þing­flokkur flokksins hafi sam­þykkt breytingarnar á þeim for­sendum að halda sam­ræmi milli laga um út­lendinga og ríkis­borgara­rétt. Þá bendir hún á að einungis fjórir af 24 aðilum sem málið varðar, hafi sent inn um­sögn.

„Sam­staða var í alls­herjar- og mennta­mála­nefnd um af­greiðslu frum­varpsins með nokkrum breytingum.“

„Að ó­breyttu hefði verið unnt að sækja um ríkis­borgara­rétt á sama tíma og réttur myndast til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis en það er eitt af skil­yrðum fyrir veitingu ríkis­borgara­réttar. Þykir það ekki vera í sam­ræmi við til­gang laga um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt að þessar heimildir stofnist sam­tímis heldur hafa lögin miðað við að réttur til að óska eftir ríkis­borgara­rétti verði mögu­legur eftir að réttur til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis myndast,“ skrifar Hanna.

„Sam­staða var í alls­herjar- og mennta­mála­nefnd um af­greiðslu frum­varpsins með nokkrum breytingum. Einn nefndar­maður var á málinu með fyrir­vara, en sam­þykkti það með á­orðnum breytingum. Frum­varpið var síðan sam­þykkt með 40 at­kvæðum. Fjórir voru á móti og fjórir greiddu ekki at­kvæði,“ skrifar Hanna.

„Alls­herjar- og mennta­mála, sem fjallaði um málið, sendi það til um­sagnar 24 aðila. Af þeim sendu fjórir aðilar inn um­sögn, þ.e. Lög­reglan á Suður­nesjum, No Bor­ders Iceland, Út­lendinga­stofnun og Þjóð­skrá Ís­lands,“ skrifar Hanna jafn­framt og til­tekur þá aðila sem nefndin sendi beiðnir til vegna umsagna.

Þeir voru:

Am­ne­sty International, Barna­heill, Barna­verndar­stofa, Fangelsis­mála­stofnun ríkisins, Fjöl­menningar­setur, Kæru­nefnd út­lendinga­mála, Lög­manna­fé­lag Ís­lands, Lög­reglan á Austur­landi, Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu, Lög­reglan á Norður­landi eystra, Lög­reglan á Norður­landi vestra, Lög­reglan á Suður­landi, Lög­reglan á Suður­nesjum, Lög­reglan á Vest­fjörðum, Lög­reglan á Vestur­landi, Lög­reglan í Vest­manna­eyjum, Mann­réttinda­skrif­stofa Ís­lands, Mennta­mála­stofnun, No Bor­ders Iceland, Rauði krossinn á Ís­landi, Ríkis­lög­reglu­stjórinn, Sam­tök kvenna af er­lendum upp­runa á Ís­landi, Út­lendinga­stofnun, Þjóð­skrá Ís­lands.

Breytingin ekki stórt at­riði hjá umsagnaraðilum

„Í um­sagnar­ferli með málinu í nefndinni var þetta ekki stórt at­riði eins og sjá má.“
Fréttablaðið/Eyþór

Bjark­ey Ol­sen Gunnars­dóttir, þing­flokks­for­maður VG og nefndar­maður í alls­herjar-og mennta­mála­nefnd, til­tekur sömu rök fyrir stuðningi síns flokks við breytingunni og Ás­laug og Hanna. Það er að segja sam­ræming út­lendinga­laganna.

„Breytingin var lögð til þar sem það þykir ekki sam­ræmast að réttur til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis og til ríkis­borgara­réttar stofnist á sama tíma, þ.e. að hægt sé að sækja um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og ríkis­borgara­rétt á sama tíma. Áður var það ekki þannig að makar þyrftu að sækja um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi en nú er það eitt af bú­setu­skil­yrðum laganna. Það er því hugsunin með þessari breytingu að fyrst öðlistu réttinn til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis og síðan til ríkis­borgara­réttar.

Lögin gera þó ráð fyrir að um bú­setu­tíma þeirra sem sóttu um ríkis­borgara­rétt á grund­velli hjú­skapar fyrir gildis­töku laganna fari eftir eldri lögum. Enn fremur voru bú­setu­skil­yrðin rýmkuð með frum­varpinu.“

Hún til­tekur að í greinar­gerð frum­varpsins komi fram að að­eins hafi verið haft sam­ráð við Út­lendinga­stofnun. „Í um­sagnar­ferli með málinu í nefndinni var þetta ekki stórt at­riði eins og sjá má.“

Sam­fylkingin sam­þykkti frum­varpið vegna um­bóta

Guðmundur Andri Thorsson, er fulltrúi Samfylkingar, í allsherjar-og menntamálanefnd.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Odd­ný G. Harðar­dóttir, þing­flokks­for­maður Sam­fylkingarinnar, tekur í sama streng og hafði sam­band við Guð­mund Andra Thors­son, full­trúa Sam­fylkingarinnar í alls­herjar-og mennta­mála­nefnd.

„Ég hafði sam­band við okkar full­trúa í nefndinni. Hann fór yfir þetta með mér. Megin at­riðin eru að breytingarnar voru sam­ræmingar­at­riði milli laga – tækni­legt. Það þykir ekki sam­ræmast að réttur til ó­tíman­bundins dvalar­leyfis og til ríkis­borgara­réttar komi á sama tíma, sem sagt að hægt sé að sækja um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og ríkis­borgara­rétt á sama tíma.

„Við greiddum at­kvæði með vegna þeirra um­bóta sem í frum­varpinu voru.“

Áður var það ekki þannig að makar þyrfti að sækja um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi en nú er það eitt af bú­setu­skil­yrðum laganna. Hugsunin er þá sú að fyrst öðlist við­komandi rétt til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis og síðan til ríkis­borgara­réttar,“ skrifar Odd­ný.

„Lögin gera þó ráð fyrir að um bú­setu­tíma þeirra sem sóttu um ríkis­borgara­rétt á grund­velli hjú­skapar fyrir gildis­töku laganna fari eftir eldri lögum. Bú­setu­skil­yrðin voru svo rýmkuð með frum­varpinu.

Við greiddum at­kvæði með vegna þeirra um­bóta sem í frum­varpinu voru. Þar voru felld burt skil­yrði fyrir veitingu ríkis­borgara­réttar og veittar heimildir til að endur­veita ís­lenskt ríkis­fang þeim sem hafa misst það.“

Píratar sam­þykktu ekki á­kvæðið

Helgi segir frumvarpið næstum á allan hátt jákvætt. Þó sé að finna umrædda breytingu á veitingu ríkisborgararéttar til maka íslenskra ríkisborgara.
Fréttablaðið/Vilhelm

Hall­dóra Mogen­sen, þing­flokks­for­maður Pírata, vísaði fyrir­spurnum Frétta­blaðsins til Helga Hrafns Gunnars­sonar, full­trúa flokksins í alls­herjar-og mennta­mála­nefnd. Hann til­tekur í svörum sínum blaðsins að Píratar hafi ekki sam­þykkt breytinguna í nefnd en síðar sam­þykkt frum­varpið í heild sinni vegna þeirra um­bóta sem þar eru að finna á út­lendinga­lög­gjöfinni.

„Frum­varpið er á næstum því allan hátt já­kvætt og lagar all­nokkra mjög al­var­lega galla við lögin um veitingu ríkis­borgara­réttar. Þó fylgdi einnig með þessi „lag­færing“, að lengja tímann úr þremur árum í fjögur, þegar um er að ræða maka ís­lensks ríkis­borgara,“ skrifar Helgi.


„Þar sem frum­varpið er bæði mikil­vægt og að öllu leyti já­kvætt fyrir utan þetta at­riði, greiddum við at­kvæði með því.“

Hann vekur á því at­hygli í svari sínu að þing­flokkur Pírata hafi greitt at­kvæði gegn frum­varpinu í annarri um­ræðu um frum­varpið þann 20. febrúar síðast­liðinn. Vísar hann þar til orða sinna af þingi þann daginn:

„Virðu­legi for­seti. Þetta er engin svaka­leg breyting, hér er lagt til að það taki fjögur ár í staðinn fyrir þrjú að verða ís­lenskur ríkis­borgari sem er hér með dvalar­leyfi á grund­velli hjóna­bands við ís­lenskan ríkis­borgara. Þetta er gert af frekar tækni­legri á­stæðu, af þeirri á­stæðu að bú­setu­leyfi miðar við þær að­stæður við þrjú ár og þá þykir eðli­legra að það taki fjögur ár að verða ís­lenskur ríkis­borgari. Ég get svo sem skilið þá rök­semd en er samt á móti því að lengja tímann í fjögur ár. Þetta er hins vegar ekki stórt at­riði og ég greiði at­kvæði gegn því and­stætt því sem birtist á ljósa­töflunni.

Ég greiði at­kvæði gegn á­kvæðinu.“

Helgi segir að við loka­af­greiðslu málsins hafi verið búið að sam­þykkja um­rætt á­kvæði inn í frum­varpið í heild sinni. „Og þá er ekki lengur hægt að greiða at­kvæði gegn ein­staka at­riðum heldur verður að taka af­stöðu til málsins í heild sinni. Þar sem frum­varpið er bæði mikil­vægt og að öllu leyti já­kvætt fyrir utan þetta at­riði, greiddum við at­kvæði með því,“ skrifar Helgi.


„Mig langar líka að minnast á að mér finnst al­gjör ó­þarfi að skerða réttindi fólks, eins og er verið að gera með þessu frum­varpi“


Hann vísar þó til orða Þór­hildar Sunnu Ævars­dóttur, þing­manns flokksins, við at­kvæða­greiðsluna á Al­þingi þegar frum­varpið var sam­þykkt þann 24. febrúar.

„Virðu­legi for­seti. Ég kem hér upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta frum­varp. Ég tel það að flestu leyti vera mjög til bóta og bæta upp það kerfi hvers á­gallar hafa endur­tekið ratað inn á borð þessa þings vegna ó­sveigjan­legra reglna um t.d. ein­mitt það sem hv. þing­maður á undan mér minntist á, að sanna á sér deili. Í al­þjóð­legum rétti, svo að ég upp­lýsi hv. þm. Karl Gauta Hjalta­son, eiga flótta­menn hins vegar ekki að þurfa að leita til þeirra ríkja sem þeir eru að flýja frá til að fá skil­ríki og saka­vott­orð.

Það er mjög skýrt í þjóða­rétti þannig að með því að gera ský­lausa kröfu um það, eins og er í nú­gildandi lögum, að við­komandi sanni á sér deili eftir þessari leið erum við að biðja við­komandi líka um að brjóta þjóða­rétt. Við erum líka að brjóta þjóða­rétt á sama tíma. Það er því til bóta að við séum að laga þá reglu þótt ég hefði kannski viljað laga hana með öðrum hætti en hér er gert. (For­seti hringir.)

Mig langar líka að minnast á að mér finnst al­gjör ó­þarfi að skerða réttindi fólks, eins og er verið að gera með þessu frum­varpi, að lengja tímann sem það tekur þá sem giftast ís­lenskum ríkis­borgara að fá ís­lenskan ríkis­borgara­rétt úr þremur árum í fjögur. Mér finnst það al­gjör ó­þarfi.“

„Mér finnst það al­gjör ó­þarfi,“ segir Þórhildur Sunna um breytinguna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það komu aldrei fram neinar betri skýringar en þetta.“


Í kjöl­farið svarar Helgi spurningum Frétta­blaðsins með beinum hætti.

„Hvaða efnis­legu rök eru fyrir þessum breytingum?

„Í greinar­gerð er þetta út­skýrt svona:

„Þar sem ný lög um út­lendinga gera ráð fyrir að út­lendingur geti öðlast ó­tíma­bundið dvalar­leyfi eftir þriggja ára lög­lega bú­setu hér á landi kemur upp sú staða að út­lendingur sem á ís­lenskan maka getur sótt um ó­tíma­bundið dvalar­leyfi og ríkis­borgara­rétt á sama tíma. Þykir það ekki vera í sam­ræmi við til­gang laga um ís­lenskan ríkis­borgara­rétt að heimildir þessar stofnist sam­tímis heldur hafa lögin miðað við að réttur til að óska eftir ríkis­borgara­rétti verði mögu­legur eftir að réttur til ó­tíma­bundins dvalar­leyfis myndast. Til að sam­ræma og tengja saman þau skil­yrði sem út­lendingar þurfa að upp­fylla til að fá ó­tíma­bundið dvalar­leyfi hér á landi og þau skil­yrði sem þeir þurfa að upp­fylla til að öðlast ís­lenskt ríkis­fang er hér lagt til að um­sækjandi sem er í hjú­skap með ís­lenskum ríkis­borgara hafi verið hér bú­settur í fjögur ár.“

Það komu aldrei fram neinar betri skýringar en þetta.“

„Enda er ekki vitað um hags­muna­sam­tök eða fé­lag ná­kvæm­lega þeirra út­lendinga sem eru hér á þessu til­tekna dvalar­leyfi.“

Hvers vegna var tíminn lengdur um því sem nemur ár?

„Sama og við lið 1.“

Voru höfð sam­ráð við þann þjóð­fé­lags­hóp sem þessi laga­breyting tekur til­lit til, það er að segja, er­lenda ríkis­borgara sem bú­settir eru hér­lendis með ís­lenska maka?

„Það fer svo­lítið eftir því hvað þú eigir við með sam­ráði. Það er inn­byggt sam­ráðs­ferli í þing­lega með­ferð, og málið var sent til um­sagnar bæði þegar það var verið að búa það til í ráðu­neytinu (í sam­ráðs­gátt stjórn­valda), sem og í hinu inn­byggða sam­ráðs­ferli við þing­lega með­ferð.
Að því leyti var haft sam­ráð, já.

Ef þú hins­vegar átt við ná­kvæm­lega þann hóp sem yrði fyrir þessari til­teknu breytingu, þá verður eigin­lega að segja nei, enda er ekki vitað um hags­muna­sam­tök eða fé­lag ná­kvæm­lega þeirra út­lendinga sem eru hér á þessu til­tekna dvalar­leyfi og bíða eftir því að sækja um ríkis­borgara­rétt.

Þannig að svarið er eigin­lega bæði já og nei, eftir því hvernig þú meinar spurninguna,“ skrifar Helgi. Hann bendir á að 24 aðilar hafi sér­stak­lega verið beðnir um að skila inn um­sögn, líkt og fram hefur komið í svörum annarra þing­flokks­for­manna.

„Það bárust fjórar um­sagnir, sem finna má hér, en engin þeirra minntist á þetta at­riði,“ skrifar Helgi og lætur fylgja með hlekk á vef Alþingis þar sem sjá má umsagnaraðila.

„Að því sögðu tel ég ekki að það hefði breytt neinu ef hags­muna­sam­tök þeirra sem verða fyrir breytingunni hefðu and­mælt. Auð­vitað vill fólk fá ríkis­borgara­rétt fyrr en ella, og ég held að ráðu­neytið hafi verið eins með­vitað um það og það getur mögu­lega verið.“

Á hvaða for­sendum sam­þykkti þinn þing­flokkur breytingarnar?

„Við greiddum at­kvæði gegn þessari breytingu. En þegar hún var komin endan­lega inn í frum­varpið greiddum við at­kvæði með frum­varpinu vegna þess að það var í heildina bæði gott og mikil­vægt, þrátt fyrir þennan ann­marka.“

Athugasemdir