Líklegt er að leiguverð hækki verulega frá því sem nú er. Már Wolfgang Mixa hagfræðingur segir að fjöldi íbúða sem áður hýstu fasta leigjendur sé eftir hlé aftur kominn í útleigu Airbnb með vaxandi ferðamannastraumi. Það minnki framboð fyrir fasta leigjendur.

Í bloggpistli segir Már að leiguverð hafi hækkað um tvö prósent milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu og komi ekki á óvart. Ólíkt húsnæðisverði hafi leiguverð lækkað fyrst eftir að heimsfaraldur Covid skall á þar sem íbúðir sem áður voru nýttar fyrir ferðamenn urðu leiguíbúðir. Nú hafi staðan snúist við.

Þá segir Már að með því að fjöldi fólks af erlendum uppruna komi til landsins til að vinna við vaxandi umsvif í atvinnulífi, einkum í ferðaþjónustu, kreppi enn frekar að fyrir aðila á leigumarkaðnum.

„Þar sem húsnæðisverð og leiguverð hefur almennt mikla samfylgni þá er líklegt að leiguverð hækki mikið næstu mánuði,“ segir Már Wolfgang Mixa.