Veruleg fækkun geðlækna í geðþjónustu Landspítalans er áhyggjuefni. Í dag vantar geðlækna í tíu stöður á Landspítala.

Þetta kemur fram í Læknablaðinu.

Nanna Briem, for­stöðu­maður geð­þjónustu Land­spítalans, segir að þar sem áður voru mönnuð 30 stöðu­gildi séu núna 22 geð­læknar í færri en 20 stöðu­gildum.

„Á­stæðan er meðal annars sú að innan heilsu­gæslunnar hefur verið komið á fót geð­heilsu­teymum og ráðnir þangað fjöl­margir geð­læknar á mjög skömmum tíma. Einnig út­skrifum við ekki nógu marga sér­fræðinga í geð­lækningum. Það er því bráður skortur á geð­læknum,“ er haft eftir Nönnu.

Fáir ljúka sérfræðinámi í geðlækningum

Nýjar stöður geð­lækninga á heilsu­gæslunni hafi bitnað á Land­spítalanum og nú vanti sér­fræðinga til starfa. Nanna segir að á næstu árum muni fáir ljúka sér­fræði­námi í geð­lækningum. Lík­lega um tveir til þrír á næstu tveimur árum en á­hugi á faginu fari vaxandi.

„En það eru fleiri á fyrsta og öðru ári núna en verið hefur áður. Þetta er öflugur hópur sem lofar góðu en það líða nokkur ár áður en við fáum fleiri sér­fræðinga. Ég minni líka á að á næstu árum munu nokkrir sér­fræðingar hætta vegna aldurs svo það verður á­fram þörf á fleiri læknum og þessi þróun sýnir að verk­efnum geð­lækna fer stöðugt fjölgandi,“ segir Nanna.

Auglýsa eftir geðlæknum erlendis

Nanna segir enga aug­ljósa lausn í sjón­máli en brugðið hafi verið til þess ráðs að aug­lýsa eftir geð­læknum er­lendis. Tveir læknar hafi verið ráðnir í maí og að þeim hugnist að aug­lýsa aftur á er­lendri grundu.

„En ljóst er að við þurfum að draga saman þjónustuna og færa verk­efni til heilsu­gæslunnar. Enda eru teymin þar mun betur mönnuð heldur en flest teymi geð­þjónustu Land­spítala. En til fram­tíðar þurfum við að eiga sam­tal við yfir­völd um hvernig við ráðum fram úr þessum skorti á sér­fræðingum og öðrum fag­stéttum enda má upp­bygging á einu sviði ekki verða til þess að vanda­mál skapist á öðrum sviðum,“ segir Nanna í Lækna­blaðinu.

ADHD teymið án geðlækna

Frétta­blaðið greindi frá því í maí að gríðar­legur skortur væri á geð­læknum og að þeir hefðu undan­farið fært sig yfir í ný geð­heilsu­teymi heilsu­gæslunnar. ADHD teymi Land­spítalans hefur til að mynda verið án geð­læknis undan­farna mánuði.

Þá sagði Vil­hjálmur Hjálmars­son, for­maður ADHD sam­takanna, stöðuna kol­svarta í sam­tali sínu við Frétta­blaðið um miðjan septem­ber síðast­liðinn.