Veruleg fækkun geðlækna í geðþjónustu Landspítalans er áhyggjuefni. Í dag vantar geðlækna í tíu stöður á Landspítala.
Þetta kemur fram í Læknablaðinu.
Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans, segir að þar sem áður voru mönnuð 30 stöðugildi séu núna 22 geðlæknar í færri en 20 stöðugildum.
„Ástæðan er meðal annars sú að innan heilsugæslunnar hefur verið komið á fót geðheilsuteymum og ráðnir þangað fjölmargir geðlæknar á mjög skömmum tíma. Einnig útskrifum við ekki nógu marga sérfræðinga í geðlækningum. Það er því bráður skortur á geðlæknum,“ er haft eftir Nönnu.
Fáir ljúka sérfræðinámi í geðlækningum
Nýjar stöður geðlækninga á heilsugæslunni hafi bitnað á Landspítalanum og nú vanti sérfræðinga til starfa. Nanna segir að á næstu árum muni fáir ljúka sérfræðinámi í geðlækningum. Líklega um tveir til þrír á næstu tveimur árum en áhugi á faginu fari vaxandi.
„En það eru fleiri á fyrsta og öðru ári núna en verið hefur áður. Þetta er öflugur hópur sem lofar góðu en það líða nokkur ár áður en við fáum fleiri sérfræðinga. Ég minni líka á að á næstu árum munu nokkrir sérfræðingar hætta vegna aldurs svo það verður áfram þörf á fleiri læknum og þessi þróun sýnir að verkefnum geðlækna fer stöðugt fjölgandi,“ segir Nanna.
Auglýsa eftir geðlæknum erlendis
Nanna segir enga augljósa lausn í sjónmáli en brugðið hafi verið til þess ráðs að auglýsa eftir geðlæknum erlendis. Tveir læknar hafi verið ráðnir í maí og að þeim hugnist að auglýsa aftur á erlendri grundu.
„En ljóst er að við þurfum að draga saman þjónustuna og færa verkefni til heilsugæslunnar. Enda eru teymin þar mun betur mönnuð heldur en flest teymi geðþjónustu Landspítala. En til framtíðar þurfum við að eiga samtal við yfirvöld um hvernig við ráðum fram úr þessum skorti á sérfræðingum og öðrum fagstéttum enda má uppbygging á einu sviði ekki verða til þess að vandamál skapist á öðrum sviðum,“ segir Nanna í Læknablaðinu.
ADHD teymið án geðlækna
Fréttablaðið greindi frá því í maí að gríðarlegur skortur væri á geðlæknum og að þeir hefðu undanfarið fært sig yfir í ný geðheilsuteymi heilsugæslunnar. ADHD teymi Landspítalans hefur til að mynda verið án geðlæknis undanfarna mánuði.
Þá sagði Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, stöðuna kolsvarta í samtali sínu við Fréttablaðið um miðjan september síðastliðinn.