Verulegur kippur hefur verið í íbúðakaupum Íslendinga á Spáni á tímum farsóttarinnar, en að sögn margreyndra fasteignasala ytra kemur þar margt til, þar á meðal lítið framboð á húsnæði heima á Íslandi.

„Það hefur verið góð og vaxandi sala,“ segir Aðalheiður Karlsdóttir hjá Spánareignum, en farsóttin hafi gert það að verkum að fólk vilji síður ferðast á fjarlægari slóðir og velji fremur staði eins og Spán sem það þekkir. „Svo eru margir að selja eignir í Ameríku og færa sig yfir til Evrópu.“

Hún kveðst einnig hafa tekið eftir því að fólk vilji eiga sitt af ótta við sameiginlega snertifleti, en fyrir vikið „heilla stór hótel ekki eins mikið og áður,“ segir Aðalheiður.

Steinunn Fjóla Jónsdóttir, fasteignasali hjá Medland á Spáni, segir einnig að salan hafi rokið upp úr öllu valdi.

„Í sumum tilfellum hafa kaupendur rifist um íbúðir og fyrirhugað húsnæði selst upp án þess að búið sé að taka skóflustungu,“ segir Steinunn Fjóla, en á síðasta ári seldi Medland 250 eignir sem var metár.

Aðalheiður segir að kaupgeta sé greinilega góð á meðal Íslendinga, en fyrir vikið sé minna um lántökur en oft áður – og þegar ekki sé um auðugan garð að gresja á fasteignamarkaðnum á Íslandi leiti peningar og fjárfestingar annað.

Hún bendir á fleiri breytingar sem valda söluaukningu á Spánareignum, svo sem þau nýmæli að yngra fólk á Íslandi hlaupi oftar yfir sumarbústaðatímabilið heima fyrir og kaupi sér frekar frístundahús úti á Spáni. Áherslur í þessum efnum séu að breytast, fólk meti meira lífsgæði „og vilji njóta lífsins á meðan það getur fremur en að eiga það inni á efri árum,“ segir Aðalheiður og bætir við:

„Farsóttin hefur fengið fólk til að hugsa hlutina upp á nýtt. Það vill njóta dagsins í dag.“

Þróun fasteignaverðs á Spáni hefur lotið sömu lögmálum og víða á vinsælum byggingarsvæðum, en verðhækkun á aðföngum til húsasmíða hefur haft sín áhrif.

Sérfræðingar telja jafnvel að enn frekari fasteignaverðshækkun sé í pípunum á Spáni, meðal annars vegna aukinnar eftirspurnar fólks sem hefur lokast af inni í stórborgum á tímum farsóttarinnar – og þar eru ekki aðeins íbúar norðanverðrar Evrópu á ferðinni heldur og íbúar í Barcelona og Madrid.

Þá er ónefnd enn einan breytan á tímum farsóttarinnar sem ýtt hefur undir þessi húsakaup á Spáni, en það er sá valmöguleiki fjölda fólks að geta unnið að heiman, en bæði Aðalheiður og Steinunn Fjóla hafa horft á þessa þróun berum augum.

„Þetta á ekki síst við um yngra fólkið sem flytur út til að vinna þar á launakjörum sem miðast við íslenskan markað, í landi þar sem framfærslan er miklu viðráðanlegri en heima á Íslandi,“ segir Aðalheiður og Steinunn Fjóla bætir við:

„Þankagangur fólks hefur breyst. Í stað þess að hika lætur fólk nú slag standa – og núið er komið ofar á listann.“