Alls var 76,6 prósenta aukning í alþjóðlegri flugumferð á Íslandi í ágúst miðað við árið þar áður. Það er þó enn þriðjungi minna en þekktist árið 2019. Þetta kemur fram á vef Eurostat, tölfræðiveitu Evrópusambandsins.

Undanfarna mánuði hefur ferðaþjónustan tekið við sér á ný og eru sífellt fleiri flugfélög komin með áætlunarflug hingað á ný eins og sést í aukningunni á milli ára. Þá hefur annað íslenskt flugfélag, Play Air, hafið starfsemi sem hefur áhrif á aukninguna en framboð á flugi frá Íslandi mun minnka þegar líða tekur á árið þegar ferðum erlendra flugfélaga fækkar.