Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 26. nóvember 2021
12.00 GMT

Á sunnu­daginn er liðinn 21 mánuður frá því að fyrsta til­felli Co­vid-19 greindist hér á landi. Þann 28. febrúar 2020 greindist ís­lenskur maður með sjúk­dóminn eftir að hafa verið í ferða­lagi á Norður-Ítalíu. Þau smit sem greindust dagana á eftir mátti öll rekja til Norður-Ítalíu og Austur­ríkis, en þann 6. mars greindist hér fyrsta innan­lands­smitið.


Í kjöl­far þess lýsti ríkis­lög­reglu­stjóri yfir neyðar­stigi al­manna­varna, í sam­ráði við sótt­varna­lækni. Fyrsta bylgja far­aldursins náði há­marki um 22. mars en þann dag voru stað­fest smit 568 talsins. Hinn 16. mars var sett á sam­komu­bann á Ís­landi í fyrsta sinn og máttu ekki fleiri en 100 manns koma saman. Viku síðar voru sam­komu­tak­markanir hertar og mörkin sett við tuttugu manns.

Tak­markanir mánuðum saman


Síðan sam­komu­bann var sett á í fyrsta sinn á Ís­landi, hefur þjóðin að mestu búið við ein­hvers konar tak­markanir. Grímu­notkun, styttri opnunar­tími, sótt­hreinsun og þrí­eykið, eru hug­tök sem lands­menn hafa þurft að venjast. Sama má segja um orðin for­dæma­lausir tímar, smit­skömm, örvunar­skammtur og innan­lands­smit.

Nú erum við stödd í miðri bylgju far­aldursins, sem Thor Aspelund líf­töl­fræðingur segir að hafi enn ekki náð há­marki. Í gildi eru reglur sem segja að ekki megi fleiri en fimm­tíu ein­staklingar vera í sama rými og tryggja þarf einn metra á milli fólks sem ekki er í nánum tengslum. Þar sem það er ó­ger­legt er grímu­skylda.

Mikið hefur verið rætt um sam­komu­tak­markanir í tengslum við við­burði og lífs­viður­væri þeirra sem að þeim koma. Að­stand­endur skipu­lagðra tón­leika og við­burða sendu frá sér yfir­lýsingu þann 10. nóvember, þar sem þeir biðluðu til stjórn­valda um að þrengja ekki frekar að á­byrgu við­burða­haldi.


Þegar hertar sótt­varnar­reglur tóku gildi tveimur dögum síðar voru gerðar undan­þágur varðandi við­burði og er nú heimilt að hafa allt að 500 manns í hverju rými, svo lengi sem allir gestir fram­vísi nei­kvæðri niður­stöðu úr hrað­prófi.

Fréttablaðið/Umbrot

Of­beldis­sam­band við veiruna

Fyrir ári síðan sagðist Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir, í sam­tali við Frétta­blaðið, hafa undir­búið sig fyrir at­burði eins og heims­far­aldur í mörg ár.
Þá sagði hann þjóðina eiga hrós skilið og dáðist að því út­haldi sem fólk hefði sýnt þrátt fyrir allt. „Nú þurfum við bara að halda á­fram þessum sam­taka­mætti,“ sagði Þór­ólfur. Frétta­blaðið hafði sam­band við Þór­ólf aftur nú ári síðar og spurði hann hvort þjóðin hefði hlustað og haldið sam­taka­mættinum á­fram.

Þór­ólfur segir svo vera og sam­taka­máttinn það sem skipt hafi mestu máli. Þrátt fyrir ó­líkar skoðanir fólks varðandi þær að­gerðir sem gripið hafi verið til, sé ljóst að þær hefðu ekki verið til neins ef fólk hefði ekki farið eftir þeim.


„Ég byggi mínar til­lögur á þeim gögnum sem ég hef, en ekki til­finningu. Þó að ein­hver segist ekki nenna þessu lengur þá get ég ekki breytt því sem gögnin segja mér,“ segir Þór­ólfur.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist byggja sínar tillögur á gögnum en ekki tilfinningum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Svo eru það af­leiðingarnar sem þarf að skoða síðar. Þær efna­hags­legu til dæmis og á­hrifin á and­lega líðan fólks. En ég er viss um það að ef við hefðum leyft veirunni að leika lausum hala, hefðu and­legar af­leiðingar veikinda og yfir­fullra sjúkra­húsa orðið verri,“ segir hann.


Þórólfur lýsir sam­bandi veirunnar við þjóðina sem of­beldis­sam­bandi. „Við erum búin að búa í of­beldis­sam­bandi við þessa veiru í tæp­lega tvö ár. Veiran er söku­dólgurinn, ekki sótt­varna­læknir eða stjórn­völd. Veiran gefur okkur góðar vonir eitt augna­blikið og svo allt í einu bregst hún öðru­vísi við, þetta er búin að vera rússí­bana­reið,“ segir Þór­ólfur.

„Nú þurfum við bara að halda á­fram sam­taka­mættinum og þolin­mæðinni,“ bætir hann við.

Vel bólu­sett þjóð


Bólu­setning hófst á Ís­landi þann 29. desember 2020, þegar fjórir heil­brigðis­starfs­menn voru bólu­settir í beinni út­sendingu. Síðan þá hafa tæp 90 prósent lands­manna sem náð hafa tólf ára aldri verið full­bólu­sett.
Yfir 100 þúsund ein­staklingar hafa fengið örvunar­skammt og öllum þeim sem teljast full­bólu­settir, stendur til boða að fá örvunar­skammt sem veita á frekari vörn gegn Co­vid-19.

Athugasemdir