Barnabókarverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt við veglega athöfn í Höfða í dag. Veitt eru verðlaun í þremur flokkum, það er fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina á íslensku, bestu þýðingu á barna- og unglingabók og bestu myndskreytingu á barna- og unglingabók.

Verðlaun fyrir bestu barna- og unglingabókina hlaut Kristín Helga Gunnarsdóttir, fyrir bókina Vertu ósýnilegur, Magneu J. Matthíasdóttur fyrir þýðingu á bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur og Ránar Flygenring fyrir myndskreytingar í bókinni Fuglar. Meðhöfundur Ránar að bókinni Fuglar er Hjörleifur Hjartarson. Hann tók við verðlaununum fyrir hennar hönd í dag. 

Dagur B. Eggertsson, veitti verðlaunin og tilkynnti um leið á athöfninni að á næsta ári verða einnig veitt verðlaun í nafni Guðrúnar Helgadóttur, fyrir óbirt handrit að barna- og unglingabók og munu nema einni milljón íslenskra króna.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru elstu fagverðlaun fyrir barnabókmenntir á landinu og hafa verið veitt frá árinu 1973. Verðlaunin eru í formi fjárveitingar og viðurkenningarskjals.

Dómnefnd í ár var skipuð Brynhildi Björnsdóttur, formanni, Jónu Björgu Sætran borgarfulltrúa, Gunnari Birni Melsted grunnskólakennara, Davíð Stefánssyni, fulltrúa Rithöfundasambands Íslands, og Þórdísi Aðalsteinsdóttur, fulltrúa Sambands íslenskra myndlistarmanna.