Samtök hernaðarandstæðinga fordæma kynningarfund á námskeiði í vopnaburði og öryggisgæslu sem European Security Academy heldur á Grand hótel á morgun. ESA er stærsti öryggis- og herskóli í Evrópu og hefur meðal annars þjálfað Azov Battalion sem er úkraínsk sérsveit þekkt fyrir nýnasisma og öfga-hægri stefnu.

„Er það umhugsunarefni að öfl sem ítrekað hafa daðrað við verstu birtingarmyndir kynþáttahaturs og útlendingaandúðar skuli óáreitt fá að skipuleggja námskeið á hóteli í miðri Reykjavík með áherslu á vopnaburð og hermennsku,“ segir Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.

Kynningarfundurinn verður haldinn á Grand hótel á morgun. Námskeiðin eru á vegum ESA, eða European Security Academy. Fyrirlesari á fundinum er Roger Odeberger, svæðisstjóri ESA í Skandinavíu.

Stærsti herskóli í Evrópu

ESA er stærsti öryggis- og herskóli í Evrópu og hefur meðal annars þjálfað Azov Battalion sem er úkraínsk sérsveit þekkt fyrir nýnasisma og öfga-hægri stefnu. Þetta kemur fram í frétt frá úkraínska fréttavefnum Kiev Post.

Þar kemur fram að stór hópur af liðsmönnum Azov-sveitarinnar og aðrir öfga-hægri skæruliðar hafi fengið þjálfun hjá ESA í Póllandi.

ESA Iceland er umboðsaðili European Security Academy á Ísland og samanstendur af hópi Íslendinga sem hefur áhuga á öryggismálum og öryggisgæslu, samkvæmt heimasíðu þeirra.

"ESA Iceland er hluti af European Security Academy Scandinavia sem sænski öryggisráðgjafinn Roger Odeberger veitir forstöðu. Nokkrir Íslendingar hafa þegar sótt röð námskeiða hjá European Security Academy í námunda við Poznan í Póllandi. Markmið ESA Iceland er að Íslendingar sem sinna öryggisstörfum og/eða löggæslu á sjó eða landi, eða hyggjast starfa sem slíkir á Íslandi eða erlendis njóti þjálfunar hjá European Security Academy."

Þvertaka fyrir ásakanir um öfga-hægri sinna

Fréttablaðið hafði samband við forsvarsmann námskeiðsins sem neitaði að gefa upp nafn sitt. Símanúmer aðilans mátti finna á Facebook síðu ESA Iceland til þess að tilkynna forföll fyrir kynningarfundinn. Sá aðili þvertekur fyrir ásakanirnar og tekur fram að kynningarfundurinn sé ekki á pólitískum forsendum.

„Þetta er öryggisskóli sem kennir fyrir allan heiminn og starfar samkvæmt öllum reglum Evrópusambandsins.“ Hann þvertekur fyrir ásakanirnar um að námskeiðið tengist öfga-hægri sinnum.

„Ef að skólinn hefur gerst sekur um að þjálfa einhvern hóp, vitandi að sá hópur væri öfga-hópur, af hverju hefur hann þá ekki lent í lagalegum málaferlum?“

Hvergi kemur fram á heimasíðu ESA að samtökin séu samþykkt af Evrópusambandinu. Þar má finna lista yfir stofnanir og aðila sem samþykkja ESA.

euseca.com