Lögreglumaður í Lundúnum verður yfirheyrður áfram í dag í tengslum við hvarf hinnar 33 ára gömlu Sarah Everard en lögreglumaðurinn var handtekinn í Kent síðastliðinn þriðjudag og er nú grunaður um að hafa myrt Everard. Kona á fertugsaldri hefur einnig verið handtekin í tengslum við málið.

Lögregla greindi frá því í gærkvöldi að líkamsleifar hafi fundist í skóglendi í Kent en ekki hefur tekist að bera kennsl á líkamsleifarnar. Ríkislögreglustjórinn Cressida Dick sagði í sjónvarpsávarpi í kjölfarið að um væri að ræða mikið áfall fyrir almenning og fyrir lögregluna.

„Ég tala fyrir hönd allra minna samstarfsmanna innan lögreglunnar þegar ég segi að okkur sé gjörsamlega ofboðið vegna þessara hörmulegra frétta,“ sagði hún um handtöku lögreglumannsins. „Hvarf Söruh í þessum hræðilegu og grimmilegu aðstæðum er versta martröð hverrar fjölskyldu.“

Hvarf fyrir rúmri viku

Ekkert hefur spurst til Everard í rúma viku en hún sást síðast þegar hún yfirgaf heimili vinar síns miðvikudagskvöldið 3. mars í Clapham í suðurhluta Lundúna. Málið hefur vakið mikla athygli í Bretlandi, ekki síst eftir handtöku lögreglumannsins, sem var ekki á vakt þegar Everard hvarf.

Lögreglan í Lambeth lýsti eftir Everard á Twitter þann 5. mars og degi síðar steig fjölskyldan hennar fram og sagði það verulega ólíkt henni að láta sig hverfa. Þann 7. mars var síðan myndefni úr dyrasíma birt þar sem Everard sást ganga einsömul á svæðinu en óljóst er hvort hún hafi komist heim.

Fjöldi ábendinga barst frá almenningi daginn eftir að myndefnið var birt og voru fleiri en 750 heimili heimsótt sem hluti af rannsókninni.