Samskipti Kínverja og Ástrala fara hratt versnandi og nýlegur fríverslunarsamningur virðist lítið gera til að bæta þau. Á þriðjudag skrifuðu Scott Morrison og Yoshihide Suga, forsætisráðherrar Ástralíu og Japans, undir varnarsamning sem felur meðal annars í sér samvinnu um heræfingar í báðum löndum. Kínverjar líta á samninginn sem beina ögrun við sig þrátt fyrir að Morrison hafi fullyrt að hann myndi ekki hafa nein áhrif á samskiptin við Kína.

Fyrr í mánuðinum skrifuðu fimmtán ríki Austur-Asíu og Eyjaálfu undir fríverslunarsamning af áður óþekktri stærðargráðu. Kínverjar og Ástralar eru aðilar að þeim samningi, ásamt Japan, SuðurKóreu og fleirum. Þrátt fyrir vilja um aukin viðskipti milli ríkjanna virðist stjórnmálasambandið enn þá stirt milli Kína og Ástralíu.

Kínverjar líta á Ástrali sem eina helstu bandamenn Bandaríkjanna í Vestur-Kyrrahafi og að varnarsamningurinn við Japan sé að undirlagi Bandaríkjamanna. Ástralar hafa á undanförnum árum gagnrýnt Kínverja fyrir hernaðarbrölt í Suður-Kínahafi, meðferð á Úígúrum, afskipti af Hong-Kong og Taívan og ýmis mannréttindabrot. Í vor voru Ástralar á meðal þeirra þjóða sem kröfðust þess að Kínverjar heimiluðu óháða rannsókn á uppsprettu COVID-19 faraldursins.

Zhao Liljan, fulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, viðraði áhyggjur stjórnvalda af varnarsamningnum og hnignandi stjórnmálasambandi Kínverja og Ástrala á blaðamannafundi á þriðjudag. „Ástralar hafa síendurtekið tekið ákvarðanir sem stríða gegn hagsmunum Kína, sem er ástæðan fyrir hratt hnignandi samskiptum þjóðanna á þessum erfiðu tímum,“ sagði hann. „Ábyrgðin á þessu ástandi liggur ekki hjá Kína.“