Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, og Agnar Freyr Helgason, aðjúnkt í stjórnmálafræði við HÍ, rannsaka nú áhrif hrunsins á ójöfnuð í heilsu og kynntu síðasta föstudag fyrstu niðurstöður rannsóknar sinnar á ráðstefnunni Hrunið – þið munið. 

Niðurstöðurnar sýna að þeir sem urðu fyrir verulegu tekjutapi í hruninu komu einnig verr út úr hruninu heilsufarslega.

„Við erum að skoða versnandi heilsu. Ekki hvort hún sé góð eða slæm, heldur hvort hún hafi versnað á milli ára. Kannski sagðistu 2008 vera með góða heilsu en árið 2009 er hún orðin sæmileg. Eða var mjög góð og er orðin léleg. Við erum því ekki að skoða hvort þunglyndi, kvíði eða mat á eigin heilsu hafi aukist, eða sama hver breytan er, heldur hvort hún hafi versnað,“ segir Sigrún Ólafsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

Í rannsókn þeirra eru sérstaklega skoðaðar þessar spurningar: 

Hver eru áhrif þess á heilsu þegar tekjur dragast verulega saman á milli ára þegar mikil neikvæð sveifla er í efnahagslífinu?

Eru mynstrin á íslandi svipuð eða ólík öðrum Evrópulöndum, meðal annars þeim þar sem einnig var djúp efnahagslægð?

Sterk áhrif fyrir mat á eigin heilsu

Í rannsókninni eru þeir sem lækkuðu um 25 prósent eða meira á milli ára í tekjum skilgreindir sem þeir sem hafa lækkað verulega í tekjum og eru áhrif þess á þrjár breytur skoðað. 

Það er huglægt mat á eigin heilsu, hvort fólk hafi krónískan sjúkdóm eða hvort hegðun þeirra sé að einhverju leyti takmörkuð vegna heilsu. Hún segir að skýrustu mynstrin í rannsókn þeirra komi frá huglægu mati fólks á þeirra eigin heilsu. 

„Við sjáum sterkustu áhrifin fyrir eigið mat á heilsu og þar sjáum við að eitthvað gerist á milli 2006 og 2007 þegar tiltölulega stórt hlutfall svarenda segir að heilsu hafi farið versnandi á milli ára. Hlutfallið fer úr 5 prósent í svona 23 prósent. En það er ekki munur á hópunum. Síðan frá 2008 og sterkar 2009 og fram undir 2011 förum við að sjá þennan hópamun. Það eru allir að upplifa efnahagshrun en þar förum við að sjá þennan aðskilnað að það hefur sterkari áhrif á heilsu þeirra sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi á milli ára. Stærsti munurinn sem við sjáum hér, sem kemur kannski ekkert mikið á óvart, er árið 2009,“ segir Sigrún.

Ísland að mörgu leyti einstakt

Í samanburði við hin Evrópulöndin segir Sigrún að Ísland sé að mörgu leyti einstakt. Í mörgum löndunum megi sjá mun á hópunum á líðan en hrunið virðist hafa búið til meiri mun á milli þeirra sem urðu fyrir verulegum tekjumissi og þeirra sem urðu það ekki, en þau sjái annars staðar. Jafnvel í þeim löndum sem gengu í gegnum mikla erfiðleika, eins og til dæmis Spáni, Grikklandi og Írlandi. 

„Það sem við finnum á Íslandi frá 2008 er munur á þessum hópum, það er þeim sem misstu verulega mikið af tekjum og þeim sem gerðu það ekki. Það er meiri munur en í öðrum Evrópulöndum, þar með talið löndum sem upplifðu mikla efnahagskreppu. En svo sjáum við núna í síðari mælingum að hóparnir virðast vera að mætast aftur,“ segir Sigrún.

Getur líka haft jákvæð áhrif

En hún segir að þótt rannsóknir sýni oft slæm áhrif, þá geta slík áföll einnig haft góð áhrif á heilsu einstaklinga og þar hafa til dæmis rannsóknir annarra sýnt fram á að lífsstíll fólks geti orðið heilbrigðari og að í og eftir kreppur þá reykja færri, fólk drekkur minna og, keyrir minna og neytir minni sykurs og umferðarslysum fækkar.

„Við sáum það alveg hér að margir voru komnir beint upp á fjall,“ segir Sigrún og hlær. En burtséð frá öllu gríni þá segir Sigrún að margt sé áhugavert við hrunið á Íslandi.

„Af því að þetta var svo hröð, djúp og óvænt þróun í rauninni. Við erum þá með þetta ástand að það er efnahagshrun og það eru erfiðleikar sem allir upplifa. En það auðvitað hefur ekki sömu áhrif á alla. Sumir koma verr út úr því en aðrir,“ segir Sigrún og segir frá grein sem hún skrifaði ásamt Jóni Gunnari Bernburg og Berglindi Hólm Ragnarsdóttur.

Þeir sem komu verr út upplifðu meiri reiði

Sú grein sýndi að einungis þeir sem töldu sig koma verr út úr hruninu en aðrir upplifðu meiri reiði en þeir sem töldu sig ekki hafa komið verr út en aðra. Þannig virðist það að upplifa að hlutirnir séu slæmir, en ekkert endilega verri en hjá öðrum, ekki leiða til reiði og þessar niðurstöður voru kannski ein af ástæðum þess að Sigrún og Agnar fóru að hugsa um mikilvægi þess að skoða hópamun varðandi áhrif á heilsu.  

Meira áfall fyrir Íslendinga

Sigrún segir að margar ástæður geti legið að baki því að meiri hópamunur finnst hér á Íslandi en annars staðar og veltir því fyrir sér hvort munurinn sé fólginn í því hrunið hafi verið meira áfall fyrir Íslendinga en almenning í sumum öðrum löndum.

„Það er alltaf erfitt að segja með svona gögn en hugsanlega getur það tengst því hvernig hrunið var hér á landi og að sumu leyti er hægt að segja að þótt tölurnar líti ekkert miklu verr út hér þá hafði þetta svo gífurleg áhrif á það hver við erum sem þjóð og einstaklingar og Íslendingar,“ segir Sigrún og bætir við: 

„Þó að það hafi verið miklir efnahagslegir erfiðleikar í Grikklandi var ástandið kannski ekki svo gott fyrir allan almenning fyrir það. En hér var mjög stór hluti þjóðarinnar sem trúði einfaldlega að allt væri í lagi þangað til allt í einu Geir mætti í sjónvarpið og fór að tala um Guð.“

Vorum allt í einu ekki öll eins

Hún segir það megi leiða líkur að því út frá niðurstöðunum að þeir sem misstu mikið á milli ára í hruninu hafi haft það verr en aðrir.

„Þannig sjáum við allt í einu þennan hópamun því allt einu erum við ekki öll eins. Við erum öll í kreppu og fyrir stóran hluta erum við í kreppu og það er skítt, en við komumst út úr þessu. En þarna sjáum við að það er að skapast hópur sem að bæði hlutlægt og huglægt er að eiga við verri afleiðingar af hruninu en aðrir og það er spurning hvort það hafi þá þessar afleiðingar fyrir versnandi heilsu þeirra á milli ára,“ segir Sigrún að lokum.