Mikið uppnám er á meðal fjölda ríkisstarfsmanna, ekki síst ungs fólks, vegna nýrrar ákvörðunar Fjársýslu ríksins við útgreiðslu launa.

Fjársýsla ríkisins hefur nú óvænt beitt þeirri heimild sinni að greiða laun á fyrsta virka degi nýs mánaðar, sem þýðir að launamenn hjá ríkinu fari launalausir inn í verslunarmannahelgina, og fá ekki útborgað fyrr en á þriðjudag.

Þetta mun koma illa við marga sem ætla sér út á land, þessa stærstu ferðahelgi ársins.

Fjársýsla ríkisins hefur vissulega heimild til að beita þessu ákvæði, en hefur ekki beitt henni nema einu sinni áður, en það var í maí í vor og héldu þá margir að um mistök væri að ræða.

„Að gefnu tilefni minnum við á að laun skulu greidd fyrsta virka dag hvers mánaðar skv. 10.gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar sem 1. ágúst ber upp á frídag verslunarmanna er útborgunardagur launa þriðjudaginn 2. ágúst n.k.“ segir í tilkynningu frá fjársýslunni sem birtist í gær.

Sem fyrr segir er gríðarleg óánægja á meðal ríkisstarfsmanna um þessa ákvörðun og er sagt að hún hafi eyðilagt helgina fyrir fjölda fólks.