Verslunar­manna­helgin er fram undan og því eru margir á síðasta snúningi í undir­búning fyrir hana. Frétta­blaðið tók stöðuna á ýmsum sölu­aðilum sem fólk sækir til í undir­búningi fyrir helgina, hvort sem það er fatnaður, úti­legu­búnaður eða pylsur sem fólk sækist eftir.

66 Norður

„Við erum búin að sjá mjög stóra daga fyrir Verslunar­manna­helgina, það er góð traffík og mikil stemming,“ segir Hrefna Rós Hlyns­dóttir frá markaðs­teymi 66 Norður.

„Fólk er að fara að dressa sig upp fyrir helgina enda er spáin ekkert frá­bær. Veðrið núna hjálpar til,“ segir Vala Rún Magnús­dóttir, sem er einnig í markaðs­teymi 66 Norður.

Þær segja Verslunar­manna­helgina vera eins og önnur jól, enda eykst salan mikið í vikunum fyrir hana.

„Við erum að hvetja fólk til þess að skapa minningar um helgina með því að krota á polla­galla, þetta er gömul hefð frá eyjum. Svo hvítir polla­gallar eru að seljast vel hjá okkur núna,“ segja þær. Fólk sækist þó einnig í tækni­legri flíkur eins og skel­jakka eða ullar­peysur.

Elling­sen

„Það er alveg á hreinu að það er stuð fyrir Verslunar­manna­helginni, maður finnur fyrir því miðað við í fyrra og hittiðfyrra þegar Co­vid var. Maður finnur fyrir aukningu hjá okkur,“ segir Haraldur Örn Gunnars­son, rekstrar­stjóri Elling­sen. Hann segir mest seljast af úti­legu­búnaði en það sé þó tölu­vert um fatnað sem seljist einnig.

Að­spurður að því hvort tjöld séu að seljast upp segir Haraldur: „Það er nú ekkert rosa mikið eftir, það er eitt­hvað eftir af minni tjöldum en hitt er allt farið.“

„Það er búin að vera mikil um­ferð í vikunni. Yfir­leitt er þetta svo­leiðis að þetta fer að rúlla um þrjú, fjögur leitið en þetta fer örugg­lega að róast á morgun,“ segir Haraldur.

„Þetta snýst allt um veðrið. Nú er spáin á Suður­landi orðin skárri og þá kannski rífur fólk sig í gang sem var kannski á báðum áttum,“ segir Haraldur.

Olís

Olís í Norð­linga­holti er rétt við borgar­mörkin og má því búast við mikilli um­ferð hjá þeim um helgina. „Um­ferðin er búin að aukast að­eins í dag,“ segir Gunnar Júl, að­stoðar­verslunar­stjóri Olís í Norð­linga­holti.

Pylsurnar rjúka út eins og heitar lummur, að sögn Gunnars. „Ef ekki betur,“ segir hann og hlær.

„Maður bjóst við meiri um­ferð í dag en það verður kannski meira seinni­partinn eða á morgun,“ segir Gunnar.