Þetta er hundleiðinlegt en svona er þetta bara,“ segir Ásgeir Guðmundsson, annar skipuleggjandi Tónlistarhátíðarinnar Innipúkans sem átti að fara fram í Reykjavík um verslunarmannahelgina. Annað árið í röð hefur helstu útihátíðum um verslunarmannahelgina verið frestað eða aflýst vegna kórónaveirufaraldursins.

Á miðnætti laugardagsins 22. júlí tóku gildi nýjar sóttvarnareglur hér á landi vegna faraldursins sem fela meðal annars í sér 200 manna samkomubann og styttan opnunartíma skemmtistaða. Skipuleggjendum útihátíða stóð því fátt annað til boða en að aflýsa hátíðarhöldum um komandi helgi.

Ásgeir Guðmundsson, annar skipuleggjandi Tónlistarhátíðarinnar Innipúkans.

„Í fyrra þurftum við að aflýsa með eins dags fyrirvara svo í ár fáum við aðeins lengri tíma ásamt því að við gerðum ráð fyrir því að þetta gæti gerst þegar við skipulögðum hátíðina,“ segir Ásgeir.

Þá segir hann að miðaeigendum standi til boða að fá miðann endurgreiddan innan ákveðins tímaramma. „Innipúkinn er ekki hagnaðardrifin hátíð svo að ef einhverjir óska þess ekki að fá miða sína endurgreidda skiptist sú upphæð sem eftir verður á milli listamannanna sem áttu að koma fram á hátíðinni,“ segir Ásgeir.

Flestum hátíðum hefur verið aflýst

Flest þau sem standa að skipulagningu hátíða sem fram áttu að fara um helgina hafa sent frá sér tilkynningu um að dagskránni sé aflýst og hafa boðið gestum sínum endurgreiðslu eða inneign að ári liðnu.

Þjóðhátíðarnefnd hefur tilkynnt að hátíðinni verði mögulega frestað og Neistaflugi í Neskaupstað hefur verið aflýst. Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram átti að fara á Selfossi hefur einnig verið aflýst og sama gildir um Síldarævintýri á Siglufirði, Sæludaga KFUK og KFUM í Vatnaskógi, fjölskylduhátíðina Eina með öllu á Akureyri og hátíðina Flúðir um versló.

Krossfest við Akranesvita

Hátíðinni Norðanpaunk sem átti að fara fram á Laugarbakka um helgina hefur verið aflýst en haldin verður minni hátíð við Akranesvita á morgun, sú ber nafnið Krossfest. „Það er nóg pláss við Akranesvita til að halda 2m milli fólks, og við viljum eindregið hvetja ykkur til þess þó að það sé bara 1m regla samkvæmt lögum,“ segir á Facebook-síðu hátíðarinnar.