Rauða kross versluninni við Hlemm verður breytt tímabundið í fataúthlutunarstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands en þar kemur fram að það sé gert til að geta þjónustað fólk betur með þarfir hvers og eins í huga. Fyrst um sinn verður opið frá klukkan 12 og til 16.
Versluninni við Hlemm verður lokað sem hefðbundinni verslun á meðan, en opnunartími allra annarra verslana Rauða krossins breytist ekki.Fram kemur í tilkynningunni að allir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk séu velkomin og að áfram verði tekið á móti hefðbundnum fatakortum í verslun Rauða krossins í Mjódd.
Fatasöfnun Rauða krossins fer fram um allt land og hægt er að gefa föt til flóttafólks í fatagáma Rauða krossins. Sérstaklega er óskað eftir hlýjum vetrarfatnaði fyrir flóttafólk, eins og úlpum og vetrarskóm og hversdagsfatnaði, sokka og nærfatnaði. Hægt er að senda tölvupóst á fataflokkun@redcross.is ef um stærri gjafir er að ræða.
Hér á vef Rauða krossins er hægt að finna frekari upplýsingar um fatasöfnunarverkefni þeirra.
Í síðustu viku sendi Rauði krossinn 70 milljónir, sem safnast höfðu í neyðarsöfnun félagsins og með stuðningi utanríkisráðuneytisins, til mannúðaraðgerða Alþjóða Rauða krossins í og við Úkraínu. Neyðarsöfnun félagsins heldur áfram en frá og með deginum í dag nær söfnunin einnig yfir hjálparstarf Rauða krossins vegna þeirra sem flýja átökin í Úkraínu til Íslands.
Hægt er að styðja við neyðarsöfnun Rauða krossins með eftirtöldum leiðum:
- SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.)
- Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
- Kass: raudikrossinn eða 7783609
- Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649