Innflutningur á rússneskum vörum hefur helmingast hjá ríkjum Evrópusambandsins síðan í febrúar, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Í febrúar voru 7 prósent af innflutningi ESB frá Rússlandi en í dag er hlutfallið um 3,5 prósent. Útflutningur hefur minnkað úr rúmlega 2 prósentum niður í 1.

Minnkandi viðskipti með orku á stóran hlut í þessu. Fyrir stríðið voru 35 prósent gass innflutt með þremur pípum frá Rússlandi og stefnt var að því að taka þá fjórðu, Nordstream 2, í gagnið innan skamms. Núna lítur út fyrir að ekkert verði af þeim áformum og hlutfall rússnesks gass er komið undir 20 prósent.

Innflutningur á olíu hefur minnkað úr 25 prósentum niður í tæplega 15. Hlutfall rússneskra kola hefur fallið úr 45 prósentum í 13. ESB stefnir að því að verða algerlega óháð Rússum um orku vegna árásargirni og óstöðugleika stjórnvalda í Kreml.

Viðskipti með flestar aðrar vörur hafa einnig minnkað. Til að mynda járn, stál og áburð. Sumt stingur þó í stúf, eins og til dæmis verslun með nikkel. Hlutfall nikkelinnflutnings frá Rússlandi hefur aukist úr 42 í 43 prósent frá tímanum fyrir stríð.