Samtökin No Borders segja starfsmenn Háskóla Íslands fjarlægja plaggöt og upplýsingabæklinga um tanngreiningar á ungu flóttafólki.

Háskólaráð staðfesti fyrr á árinu þjónustusamning við Útlendingastofnun um að framkvæma hluta aldursgreiningar á ungum hælisleitendum á Íslands.

Tanngreiningar eru notaðar til þess að ákvarða aldur viðkomandi unglings eða barns til þess að ákvarða hvaða réttindi viðkomandi á sem flóttamaður.

Tannlæknadeild Háskóla Íslands framkvæmir rannsókn á hælisleitendum sem verulegur vafi þykir leika á að segi satt um aldur.

Ákvörðun háskólaráðs hefur verið umdeild og hafa margir dregið í efa aðferðina og velt upp siðferðislegum spurningum um hlutverk háskóla í máli flóttamanna.

Stúdentaráð hefur lagst gegn tanngreiningum og segja ákvörðun háskólaráðs og rektors í andspyrnu við hlutverk háskólans, auk þess að vera þvert á mat vísindasiðanefndar og jafnréttisnefndar Háskólans.

No Borders segja plaggöt og bæklinga Nýnasistasamtakanna Norðurvígis hafi fengið að hanga lengi á lóð haskólans án þess að starfsfólk fjarlægði áróðursefnið. Á hinn boginn hafi skilaboð um tanngreinilegar og „hræsni háskólayfirvalda“ verið tekin niður samstundis, oft innan við klukkustund frá því að þeim var komið fyrir á töflum í háskólanum að sögn samtakanna.

„Kannski er það þess vegna sem nýnasista áróðurinn hefur fengið að vera meira og minna í friði; starfsmenn háskólans eru of upptekin að vernda orðspor rektors með því að hindra heilbrigða gagnrýni og upplýsingaflæði um störf Háskólans,“ segir í tilkynningu No Borders.

Fréttablaðið ræddi við bandarískan háskólanema við HÍ í gær sem sagði það á­hyggju­efni að háskólinn hefði ekki enn sent frá sér yfir­lýsingu varðandi verknaðinn þrátt fyrir að fjöldi nem­enda hafi sent á­bendingar til há­skólans. Jón Atli rektor sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið á Facebook og í tölvupósti til nemenda í morgun.