Verndandi arfgerð gegn riðu í sauðfé, ARR, hefur fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Kindur með slíka arfgerð geta hvorki veikst né smitað annað fé af riðu.

Rannsóknarhópur kynnti þessi stórmerkilegu tíðindi á fjarfundi í dag með fjölmiðlum en um er að ræða tímamót í baráttunni við að útrýma riðuveiki á Íslandi. Næstu skref er að fara af stað í ræktunarstarf til að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í íslenska stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans.

„Hér eru um gríðarlega merk og mikilvæg tíðindi að ræða fyrir íslenska sauðfjárrækt og baráttuna við riðuveiki sem gefur góða von um að það verði hægt að útrýma sjúkdómnum í náinni framtíð,“ segir í tilkynningu frá rannsóknarhópnum.

Að rannsókninni stóðu Eyþór Einarsson sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, Gesine Lühken, prófessor hjá Universität Gießen, í Þýskalandi, Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð, Stefanía Þorgeirsdóttir og Vilhjálmur Svansson, sérfræðingar hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

„Við vorum eiginlega búin að missa vonina,“ sagði Eyþór á fundinum í dag um tilfinninguna áður en þau uppgötvuðu arfgerðina.

Rannsóknarhópurinn raðgreindi 4200 sýni og fann óvænt sex kindur á sama bæ, Þernunesi í Reyðarfirði, sem báru sömu arfgerðina. Efri röð frá vinstri: Eyþór, Gesine og Vilhjálmur. Neðri röð frá vinstri: Stefanía og Karólína.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Niðurskurður eina lausnin

Riða er ólæknandi og banvænn príonsjúkdómur sem leikið hefur íslenska sauðfjárstofninn grátt í gegnum árin. Árið 2020 greindust um 2500 kindur á Norðurlandi vestra með riðu og þurfti þá að skera niður allt féð. Niðurskurður hefur lengi verið eina verkfærið í baráttunni við riðu en nokkurrar óvissu gætti um hvernig farga ætti svo miklu magni af riðusýktu hræi.

Það reyndist vandkvæðum bundið að skipuleggja förgun gripanna þar sem eina brennslustöð landsins hafði ekki afkastagetu til að taka á móti slíku magni í einu. Að lokum var ákveðið að urða hluta af hræinu á urðunarstað við Skarðsmóa í Skagafirði

Úr Búnaðarritinu 1991.

Erfitt er að eyða riðu þar sem sjúkdómurinn berst með próteininu Príón. Riða hefur margoft komið upp á Norðurlandi vestra og er talið að það sé vegna eldri riðusmita þar sem próteinið lifði í jarðveginum þar sem mátti finna gamla urðunarstaði.

Príónpróteinið sjálft er afar harðgert og þolir hita og kulda, langa suðu, geislun og flest sótthreinsinefni nema helst klór og vítissóda.

Ætluðu til Grænlands þegar arfgerðin fannst á Austurlandi

Síðastliðið vor var hleypt af stokkunum tveim rannsóknarverkefnum sem höfðu sama meginmarkmið: að leita að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé. Annarsvegar eru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hinsvegar sauðfjárbóndinn Karólína Elísabetardóttir ásamt erlendum vísindamönnum sem standa fyrir rannsóknunum.

Hóparnir sameinuðu krafta sína og eftir 10 mánaða rannsóknir, þar sem meðal annars var hoft til þess að skoða fé á Grænlandi af íslenskum uppruna, gerðist hið óvænta; sex kindur fundust á Austurlandi sem bera arfgerðina ARR.

Sögulegi tölvupósturinn sem Karólína sendi á Eyþór eftir að hún fékk niðurstöður úr greiningu á sýnum frá Þernunesi.

Sýni voru tekin úr tveimur gripum í hjörðinni og send til Þýskalands til greiningar og reyndust þeir báðir vera með ARR. Í kjölfarið voru strax tekin aftur sýni úr þessum sömu gripum sem og nákomnum ættingjum þeirra. Tilraunastofu MATÍS í Reykjavík greindi þau sýni og staðfesti fyrri niðurstöður. Þar eftir fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð. Kindur þessar eru kollóttar og rekja ættir sínar meðal annars í kollótta féð í Reykhólasveit og á Ströndum.

„Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu,“ segir í tilkynningu frá rannsóknarhópnum.

Frægustu kindur Íslands: Njálu-Brenna, Njálu-Saga, hrúturinn Gimsteinn, Hallgerður, Katrín og Svandís.
Þernunes í Reyðarfirði. Hér búa kraftaverkakindurnar.

Leita einnig að nýrri verndandi arfgerð

Um þessar mundir hefst stórátak meðal bænda í riðuarfgerðargreiningum, þar sem áætlað er að ná upplýsingum um arfgerðir 15 þúsund gripa til viðbótar nú í vetur.

Rannsóknarhópurinn vill kanna hvort ARR geti fundist í öðrum kindum á Íslandi en einnig leita að nýrri verndandi arfgerð sem kallast T137, sem hefur fundist á Ítalíu.

„Ef niðurstöður rannsóknanna eru samkvæmt óskum, gæti Ísland orðið fyrsta landið í heimi sem nýtir sér fleiri en eina verndandi arfgerð. Það myndi hafa jákvæð áhrif á fjölda mögulegra ræktunargripa og á erfðabreytileika stofnsins, en einnig hraða uppbyggingu þolins stofns.“

Kindur á Sveinsstöðum og Straumi sem hafa greinst með T137 arfgerð, sem er líka verndandi en hefur þó ekki verið alþjóðlega viðurkennd eins og ARR arfgerðin.

Fyrstu ARR lömbin gætu fæðst á næsta vori

Næstu skref er að koma ARR arfgerðinni inn í íslenska stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans.

Þýskar rannsóknir á slíku ræktunarstarfi sýna að hægt sé að ná góðum árangri á um fimm árum. Betra sé að nota fleira en eina arfgerð, eins og til dæmis ARR og TI37, til að draga ekki úr erfðafjölbreytileika íslenska stofnsins.

Eyþór segir að fyrstu gripirnir gætu fæðst vorið 2023 ef allt gengur vel.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segir að þessi uppgötvun muni draga verulega úr þjáningum dýra sem og bænda sem þurfa þá ekki að skera niður kindur með ARR arfgerðina komi riða upp á bænum þeirra.