Á sama tíma og verðbólga mælist hærri en hún hefur mælst í áratug, verð á matvælum rýkur upp og fullyrt er að frekari hækkanir séu í pípunum lækkar verð á lausasölulyfjum, samkvæmt verðkönnun sem Veritabus gerði í síðustu viku í þeim apótekum og keðjum sem eru með netverslanir.

Kannað var verð hjá Lyfjaveri, Lyfju og Garðs apóteki, en Lyf og heilsa eignuðust Garðs apótek á síðasta ári.

Könnuð var vörukarfa með 68 lausasölulyfjum sem til voru hjá öllum söluaðilum. Meðalverð körfunnar var um 150 þúsund krónur.

Mæld var breyting verðs frá síðustu verðkönnun ASÍ, sem gerð var 2. nóvember 2021. Á þessu tímabili hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,4 prósent. Vörukarfan hafði hins vegar lækkað hjá öllum apótekunum og keðjunum.

Mesta lækkunin var hjá Lyfju, 3,5 prósent. Miðað við 2,3 prósenta skekkjumörk getur lækkunin legið á bilinu 1,2 til 5,8 prósent.

Hjá Garðs apóteki lækkaði karfan um 3 prósent. Miðað við 2,1 prósents skekkjumörk getur lækkunin legið á bilinu 0,9 til 5,1 prósent.

Minnst var lækkunin hjá Lyfjaveri, 0,1 prósent. Miðað við 1,9 prósenta skekkjumörk getur verðbreyting þar hafa verið frá 1,8 prósenta hækkun til 2,0 prósenta lækkunar.

Verðlækkun lyfja á sama tíma og verðlag almennt hækkar mjög getur gefið vísbendingu um að verðsamkeppni á markaði með lausasölulyf hafi aukist hér á landi.