Byko gaf öllum starfsmönnum sínum, rúmlega 440 manns, gjafabréf á gististöðum um allt land í gegnum styrkjumisland.is. Eru þetta ein stærstu einstöku kaup á vefnum. Kaupin kosta fyrirtækið um sex og hálfa milljón króna en hver og einn fékk gjafabréf upp á 14.900 krónur.

Sigurður B. Pálsson, forstjóri Byko, segir að starfsmenn sínir hafi staðið sig eins og hetjur í erfiðum aðstæðum COVID-19 ástandsins og eigi allt gott skilið.

„Þetta var seinni gjöfin okkar. Fyrri kom í miðju fárinu þegar við veittum starfsmönnum inneign út að borða á veitingastaði,“ segir forstjórinn sem vildi þakka sínu fólki fyrir vel unnin störf.

„Það var mikið álag og stundum gríðarlegt álag í bland við ótta, en allir lögðu sig 100 prósent fram – því það var töluvert að gera. Við vildum sýna okkar þakklæti og okkur fannst gott að styrkja þá atvinnugrein sem var að koma hvað verst út úr þessu, sem voru annars vegar veitingastaðir og hins vegar ferðaþjónustan.“

Katrín Magnúsdóttir, framkvæmdarstjóri Godo hugbúnaðarfyrirtækisins sem hannaði vefinn, segir að þetta séu ein stærstu einstöku kaup á styrkjumisland.is. „Þetta er með þeim stærstu. Það eru nokkrir aðilar búnir að taka svona pakka en þetta er vissulega með þeim stærstu.“

Verkefnið Styrkjum Ísland er hvatning til landsmanna að ferðast innanlands. „Fyrirtæki og stofnanir hafa verið að taka svona pakka kannski í staðinn fyrir árshátíð eða eitthvað álíka. Einstaklingar hafa einnig verið duglegir að kaupa og þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Katrín.

Sigurður segir að hver og einn starfsmaður hafi unnið þrekvirki enda framkvæmdagleði landans mikil eftir að landið lokaðist.

„Í mars og apríl var sölusamdráttur en álagið var engu að síður mjög mikið því það var helmingi færra starfsfólk í búðunum og takmarkanir settu ákveðnar skorður. Það var ótti á þessum tíma líka sem framkallaði mikið álag. Við settum mikið púður í sóttvarnir og gerum enn, eins og til dæmis í Leigumarkaðnum, og svo þegar þjóðin fór að sjá til lands í þessu ástandi þá fór framkvæmdagleðin að skína.“

Sigurður segist ekki vera kominn með á hreint hvað verði gert næst fyrir starfsfólkið.

„Ég verð að viðurkenna að ég var gríðarlega stoltur af fólkinu mínu og ég vona að það hafi fundið það frá mér. Við tölum stundum um það, við skrifstofublækurnar, þegar við fórum á gólfið – þar stóð okkar fólk við vinnu sína og stóð sína plikt í þessum ótta, þar var þrekvirki unnið. Ekki bara hér heldur almennt í verslun og þjónustu,“ segir forstjórinn.