Lög­reglan á Akur­eyri telur að eldurinn sem kom upp í frysti­húsi Hrísey Seafood í Hrís­ey á föstu­daginn hafi kviknað af manna­völdum.

Verkstjóri sem starfar hjá Hrísey Seafood og gisti í húsinu þessa nótt og var þar einn svo vitað sé gerði fyrst viðvart um eldinn. Er Fréttablaðið náði tali af honum í gær til að inna hann eftir atburðarásinni neitaði hann alfarið að tjá sig.

„Við erum bara að nota úti­lokunar­að­ferðina. Við teljum þannig að það sé nánast úti­lokað að bruninn hafi komið til vegna raf­magns­bilunar. Við byggjum það á mati sér­fræðings Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar,“ sagði Bergur Jóns­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn á Akur­eyri, við frettabladid.is í gær.

Í fyrstu var talið að kviknað hefði í vegna raf­magns­bilunar þar sem lyftarar voru í hleðslu í frysti­húsinu. Sér­fræðingurinn hefur úti­lokað þann mögu­leika. „Þá hlýtur bruninn að vera af manna­völdum og þá koma tveir mögu­leikar til greina,“ út­skýrði Bergur. „Í­kveikja eða slys. Við höllumst frekar að því að þetta hafi nú verið slys. Við vitum að það var verið að sjóða þarna, raf­sjóða eða log­sjóða, þannig það er svo­ sem ekki ó­lík­leg skýring.“