Kjartan Ólafsson, 25 ára þroskahamlaður maður með Downs-heilkenni, vann í vikunni fullnaðarsigur í máli sínu gegn Reykjavíkurborg. Málið höfðuðu foreldrar Kjartans, fyrir hans hönd, í apríl 2020 vegna verklags borgarinnar í kringum biðlista fatlaðra eftir húsnæði með þjónustu.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Kjartani í hag 16. júní 2021 en borgin gat ekki unað dóminum og áfrýjaði til Landsréttar. Málið var á dagskrá Landsréttar á morgun, föstudag, en borgin ákvað í vikunni að falla frá áfrýjun sinni og una dómi héraðsdóms.

Fordæmisgefandi niðurstaða

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Kjartans, fagnar niðurstöðunni og segir hana mjög fordæmisgefandi fyrir fatlaða einstaklinga sem enn eru á biðlistum borgarinnar. „Niðurstaðan felst í því að verklagið við biðlistana stenst ekki lög,“ segir Flóki og bætir við að grundvallarástæðan sé sú að biðlistarnir hafi ekki falið í sér neina röðun umsækjenda.

Þeir hafi allir verið settir í biðflokk og úthlutun hverju sinni hafi verið gerð á mjög óljósum forsendum. „Biðtíminn virðist ekki hafa skipt neinu máli,“ segir Flóki. Einstaklingar hafi allt eins getað átt von á óendanlegri bið og aðferðafræðin standist ekki lög.

Fréttablaðið fjallaði um mál Kjartans og foreldra hans í maí síðastliðnum en hann hefur verið á biðlista eftir húsnæði með þjónustu á vegum borgarinnar í sjö ár. Þau höfðu lengi leitað svara hjá borginni um hvar Kjartan væri á biðlistum og hvenær hann gæti átt von á úthlutun en svör voru aldrei á reiðum höndum.

Mikið gleðiefni

Ragnheiður Gunnarsdóttir, móðir Kjartans, segir niðurstöðuna mikinn sigur fyrir alla. „Ég er í skýjunum fyrir hönd Kjartans og að Reykjavíkurborg skuli átta sig á þessu. Það geta allir breytt betur og það er verið að taka tímamótaákvörðun um að viðurkenna rétt fatlaðra á að vita hvenær þeir fá búsetu. Hvort sem það er eftir eitt ár eða tíu. Það fá ekki allir búsetu á morgun en það skiptir máli að fá þetta svar.“

Ólafur Hilmar Sverrisson, faðir Kjartans, tekur undir með Ragnheiði. „Þetta er mikið gleðiefni og niðurstaða sem maður átti alls ekki von á, því það var búið að áfrýja,“ segir Ólafur og bætir við að borgin sýni kjark með því að stíga til baka.

Ólafur Hilmar og Ragnheiður segja baráttuna við kerfið hafa verið átakanlega.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Svör ekki borist

Fréttablaðið leitaði til borgarlögmanns í byrjun vikunnar vegna málsins og fékk þau svör að borgin tjáði sig almennt ekki um dómsmál á meðan þau væru enn til meðferðar við dómstóla.

Síðar sama dag samþykktu foreldrar Kjartans boð frá borginni um íbúð fyrir hann og í sömu andrá barst Flóka tilkynning frá borgarlögmanni um að borgin hefði ákveðið að falla frá áfrýjun sinni. Fréttablaðið óskaði því aftur svara í gær og þegar blaðið fór í prentun höfðu engin svör borist.