Lögreglumaður sem kom á Shooters eftir átök sem áttu sér þar stað í ágúst á síðasta ári segir kvittun úr posa á barnum hafi leitt lögregluna á sporið um hvaða menn voru þar að verki. 

Segir hann þá lögreglumenn sem komu á vettvang ekki hafa áttað sig á því strax hve alvarleg árásin var. Annar dyravarðanna, sem veist var að á skemmtistaðnum, lamaðist fyrir neðan háls eftir slysið. Læknir sem bar vitni í héraðsdómi segir litlar sem engar líkur á því að hann fái hreyfigetu á ný. 

Með alskaða eftir slysið

Þarf hann aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs og er hreyfigeta hans lítil sem engin. Er þetta mat sérfræðilæknis af Grensásdeild Landspítalans. Dyravörðurinn kom á Grensás tæpum mánuði eftir slysið. Var hann að sögn læknisins mjög verkjaður og algjörlega ósjálfbjarga. 

Við högg þann 26. ágúst í fyrra orsakaði það að fimmti hryggjarliður hans brotnaði og hlaut hann svokallaðan alskaða að sögn læknisins. Alskaði þýðir að engin merki eru um hreyfigetu, en síðan þá hefur orðið örlítill vottur í skynjun í höndum en óljóst er hvort er einfaldlega um að ræða ósjálfráða vöðvaspennu. 

Í dag getur dyravörðurinn setið í hjólastól, en tók það nokkurn tíma fyrir hann að geta setið í hjólastól. Sagði læknirinn hann hafa setið frá því í lok október, eða tveimur mánuðum frá því árásin átti sér stað. 

Áttuðu sig ekki á því að árásin hefði verið svo slæm

Vakthafandi lögreglumaður sem kom á vettvang umrætt kvöld bar vitni í héraðsdómi í dag. Fyrir dómi lýsti hann því hvernig hann sá dyravörðinn liggja „í krami við hurðina.“ Hreyfðu þeir ekki við manninum og sagði hann þá ekki hafa áttað sig á því í upphafi hvað hafi átt sér stað. 

Mennirnir höfðu haft sig á brott er lögreglu bar að garði og sagði lögreglumaðurinn þá hafa notast við kvittun frá einum mannanna til þess að átta sig á því hverjir voru að verki. Þá leitaði lögregla á náðir samfélagsmiðla, ásamt þv´iað skoða upptökur af vettvangi. 

Segir hann vakthafandi lögreglumenn ekki áttað sig á því hve alvarlegt atvikið var fyrr en símtal barst frá Landspítalanum um það hve alvarleg meiðsl dyravarðanna var.