„Við erum bara mjög ánægð að geta boðið upp á þetta,“ segir Jón Viðar Stefánsson, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, en í síðustu viku hóf N1 í Staðarskála sölu á ýmsum lausasölulyfjum svo sem panodíl, íbúfeni og lóritíni.

Ný lyfjalög tóku gildi hér á landi þann 1. janúar síðastliðinn og fela þau meðal annars í sér að Lyfjastofnun er nú heimilt að veita undanþágu til sölu á lausasölulyfjum í almennum verslunum. Fram að því var einungis leyfilegt að selja hvers konar lyf í sérstökum lyfjabúðum.

Slíkar undanþágur má veita þar sem ekki er starfrækt apótek eða lyfjaútibú, til að undanþága fáist skulu vera að minnsta kosti tuttugu kílómetrar í næsta apótek.


„Næsta lyfjaútibú í nágrenni Staðarskála er á Hvammstanga í 35 kílómetra fjarlægð og því næst í Borgarnesi í 90 kílómetra fjarlægð, svo við sóttum um undanþágu vegna þessa,“ segir Jón Viðar. Þá segir hann söluna hafa farið vel af stað. „Það hefur selst alveg slatti.“

Lyfin sem um ræðir eru ofnæmislyf, verkjalyf, nikótínlyf og þvagfæralyf og segir Jón Viðar starfsfólk Staðarskála hafa fengið fræðslu um lyfin og að starfsfólk yngra en átján ára annist ekki sölu þeirra.

„Þetta þarf að vera bak við afgreiðsluborðið og er í rauninni meðhöndlað eins og tóbak en þarf þó ekki að vera í lokuðum skáp,“ segir Jón Viðar. „Svo þarf starfsfólk að benda viðskiptavinum á fylgiseðilinn sem fylgir með og að þar komi allar upplýsingar um lyfið fram,“ bætir hann við.

Jón Viðar Stefánsson rekstrarstjóri þjónustustöðva N1.
Fréttablaðið/Eggert

Þá segir Jón Viðar miklar breytingar felast í nýju reglunum og að þær séu jákvæðar fyrir bæði fólk á ferðalagi og íbúa í nágrenni Staðarskála. „Við erum náttúrulega fyrst og fremst að þessu fyrir íbúana í Hrútafirði og nærsveitamenn. Þetta eru vörur sem geta hjálpað fólki,“ segir hann.

„Svo fyrir utan það þá stoppa hjá okkur núna svona sjö þúsund manns á dag og þessi lyf geta vel gleymst heima,“ segir Jón Viðar. „Lyfsalar úti á landi eru einnig oft lokaðir um helgar og þá bara kemst fólk ekkert í þessar vörur,“ segir Jón Viðar, en lyfjaútibúið á Hvammstanga er til að mynda einungis opið frá klukkan 11-16 virka daga.

N1 Staðarskála er ekki eina verslunin sem fengið hefur undanþágu til sölu lausasölulyfja í almennum verslunum eftir að nýjar reglur tóku gildi. Frá því í mars á þessu ári hafa sjö verslanir víðs vegar um landið tekið upp sölu slíkra lyfja, Hríseyjarbúðin, Búðin Borgarfirði, Kjörbúðin á Fáskrúðsfirði, Krambúðin á Flúðum og á Laugarvatni og bæði KS Ketilási og á Hofsósi.