Lista­konan Ýr Jóhanns­dóttir komst að því á dögunum að verk eftir hana hefur hangið á lista­safninu The Museum of Con­temporary Art í Detroit (MO­CAD) í Banda­ríkjunum síðan í lok októ­ber síðastliðinn. „Einn af fylgj­endum mínum benti mér á þetta í síðustu viku en ég vissi ekkert hvað þetta var,“ segir Ýr í sam­tali við Frétta­blaðið en enginn hafði nálgast hana varðandi sýninguna.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að Ýr hafði orðið fyrir barðinu á þekkta lista­manninum eða svika­hrappinum Richard Prince sem er al­ræmdur fyrir að nýta sér list annarra í eigin sýningar. „List­formið er í rauninni að stela list. Hann er búinn að vera að vinna með það síðan á sjöunda ára­tugnum þegar pop-art var að ná hæstu hæðum sínum, hann er bara enn­þá á þeim stað.“

Í nýjustu sýningu Prince sýnir hann skjá­skot af Insta­gram reikningum kvenna og drag­drottninga og má þar sjá færslu Ýrar. Myndin er prentuð á striga og á henni má sjá mynd sem Ýr birti af Katrínu Helgu Andrés­dóttur í peysu eftir hana. At­huga­semdir og undir­texti sjást einnig á myndin

Instagram færsla Ýrar er í efra hægra horni myndarinnar og sýnir Katrínu Helgu Andrésdóttur í peysu sem hönnuð og prjónuð er af Ýr.
Mynd/Instagram

Nærist á við­brögðum

Ýr lýsir þeirri úlfa­kreppu sem lista­menn lenda í þegar verkum þeirra er stolið án þess að þau geti neitt í því gert. „Gallinn er auð­vitað að öll við­brögð sem þessi svika­list fær, eins og mín við­brögð núna, gefa þessum manni at­hygli sem er auð­vitað það sem hann þrífst á.“ Prince hefur skapað sér stórt nafn í lista­heiminum og grætt mikið á list sinni undan­farna ára­tugi.

„Hann nærist það mikið á við­brögðum að maður er alltaf að tapa sama hvað maður gerir, ef maður þegir þá tapar maður og ef maður bregst við þá tapar maður líka. Hann er alltaf að græða,“ segir Ýr og furðar sig á að slíkur maður fái jafn mikið pláss í lista­heiminum.

Maður er alltaf að tapa sama hvað maður gerir, ef maður þegir þá tapar maður og ef maður bregst við þá tapar maður líka. Hann er alltaf að græða.

Ætluðu að stela verkinu til baka

„Ég talaði við vin­konu mína um hvort ég við ættum ekki bara að fara til Detroit og taka niður myndina en það er auð­vitað sem hann vill, þannig öðlast hann meiri frægð og vin­sældir.“

Lista­konunni fannst hún þó vera knúin til að leið­rétta mis­skilning varðandi verk hennar á sýningunni. „Það var svo mikið af fólki sem hafði farið á þessa sýningu og ekki áttað sig á að engin sem var þátt­takandi í sýningunni vissi af þessu. Gestirnir vita náttúru­lega ekki að upp­runa­legir höfundar verkanna vita ekkert um þetta.“

Mynd af Zoë Ligon var einnig sýnd á sömu sýningu og mynd Ýrar.
Mynd/Instagram

Stór nöfn fá pláss sama hvað

Á­byrgðin liggi þó ekki að­eins hjá hinum svo­kallaða lista­manni heldur einnig hjá safninu. „Ég skil alveg að það sé til svona forrétindablint og gráðugt fólk í heiminum en það sem mér finnst ó­trú­legt er að söfnin séu að hleypa þessu í gegn og að hann fái þennan stuðning og tæki­færi til að halda ó­trautt á­fram.“

Á vef safnsins kemur fram að Prince hafi endur­skil­greint hug­myndir um höfundar­rétt. Ekki virðast allir vera sam­mála um það og hefur meðal annarra kona að nafni Zoë Ligon gagn­rýnt það harð­lega að mynd af henni sé til sýnis á safninu. „Það olli henni alveg mjög mikilli streitu að sjá risa­stóra­mynd af sér á brjósta­haldaranum í gamla heima­bæ sínum í Detroit án þess að nokkur hafi látið hana vita,“ segir Ýr sem hefur kannað við­brögð annarra við sýningunni.

Græðir á tá og fingri

„Þar að auki þá selur hann myndirnar á fullt af peningum vegna þess að hann er orðinn frægur lista­maður.“ Ýr tekur dæmi um þegar Prince stal mynd sem stúlkur í Banda­ríkjunum voru að selja til styrktar góð­gerða­mála á níu­tíu dollara stykkið. Hann gerði síðan enn betur og seldi téða mynd á 90.000 Banda­ríkja­dali sem lentu beint í hans eigin vasa að sögn Ýrar.

„Hann er alltaf að leika sér að því hvort þetta sé lög­legt eða ekki,“ segir Ýr en bætir við að fáir sjái sér fært um að sækja hann til saka vegna kostnaðar og annarra trafala.

„Þetta er ó­trú­lega brengluð út­gáfa af því sem ein­hverjir kalla list eða ein­hvers­konar svika­list,“ segir Ýr en hún vonast til að frægðar­sól Prince fari senn að setjast. „Ég vona að ein­hver bróki þennan mann bráð­lega.“

„Ég vona að ein­hver bróki þennan mann bráð­lega,“ segir Ýr.
Fréttablaðið/Sigtryggur