Samninga­nefnd Eflingar gagn­vart Sam­bandi ís­lenskra sveitar­fé­laga (SÍS) hefur frestað verk­falls­að­gerðum frá og með morgun­deginum vegna út­breiðslu CO­VID-19 en þetta kemur fram í til­kynningu um málið. Að­gerðirnar ná til allra fé­lags­manna sem starfa hjá Kópa­vogs­bæ, Sel­tjarnar­nes­bæ, Mos­fells­bæ, Hvera­gerðis­bæ og Sveitar­fé­laginu Ölfus.

„Co­vid-19 far­aldurinn hefur leitt til mikillar ó­vissu á öllum sviðum sam­fé­lagsins, meðal annars í starf­semi stofnana þar sem okkar fé­lags­menn vinna. Í því á­standi teljum við skyn­sam­legast að fresta verk­falls­að­gerðum þangað til far­aldurinn er liðinn hjá. Við höfum átt sam­ráð við okkar fé­lags­menn um þessa á­kvörðun og tökum hana með stuðningi þeirra,“ segir í yfir­lýsingu samninga­nefndarinnar.

Samninga­nefndin segist ekki taka annað í mál en að fé­lags­menn hjá Kópa­vogi, Sel­tjarna­nes­bæ og víðar fái sam­bæri­legar kjara­bætur og þeim sem voru í kjara­samningum Eflingar við ríkið og Reykja­víkur­borg. „Við erum til­búin að hefja verk­falls­að­gerðir af krafti á nýjan leik þegar far­aldurinn hefur gengið yfir og það er ein­dregin stuðningur meðal fé­lags­manna okkar fyrir því,“ segir samninga­nefndin að lokum.

Félagsmenn skilja áhrif faraldursins

SÍS var til­kynnt um á­kvörðun samninga­nefndarinnar í dag og verður fé­lags­mönnum Eflingar heimilað að ganga til reglu­bundinna starfa. Að sögn Sól­veigar Önnu Jóns­dóttur, formanns Eflingar, skilja flestir fé­lags­menn mjög vel hvað far­aldurinn þýðir fyrir sam­fé­lagið þar sem flestir þeirra vinna við grunn­þjónustu og við um­önnun.

„Sveitar­fé­lögin hafa hins vegar kosið að nýta sér far­aldurinn á ein­stak­lega ó­merki­legan hátt til að hamla eðli­legum fram­gangi við­ræðna. Skömm Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga er mikil. Ó­svífni þeirra breytir því þó ekki að fé­lags­menn okkar hjá Kópa­vogi og hinum sveitar­fé­lögunum munu fá sínar eðli­legu kjara­bætur,“ sagði Sól­veig Anna.