Á miðnætti hefjast fyrstu samræmdu verkföll Eflingar stéttarfélags og VR. Verkföllin ná samtals til um tvö þúsund félagsmanna, til alls 40 verkfalla og fjölda hópbifreiðafyrirtækja sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Verkalýðsfélögin ásamt Samtökum atvinnulífsins funduðu hjá ríkissáttasemjara í nær allan dag. Fjölmiðlabann hefur verið sett á viðræðurnar og því er ekki vitað hvað var rætt eða hvort eitthvað nýtt hafi verið lagt fram á fundinum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu ríkissáttasemjara er næsti fundur ekki bókaður, en gera má ráð fyrir að margir verði ansi uppteknir á morgun vegna fyrirhugaðra verkfalla.

Greint hefur verið á um túlkun á vinnulöggjöf í aðdraganda verkfallsins. Efling túlkar hana þröngt og segir að allir bílstjórar innan þeirra félagssvæðis eigi að taka þátt, en SA segir það ekki rétt. 

Sjá einnig: Túlka verk­falls­boðun ekki með sama hætti

Eflingar neitaði fyrirtækjum um undanþágu

Samkvæmt upplýsingum frá Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, sótti einhver fjöldi fyrirtækja um undanþágu frá verkfallinu, en fengu öll neitun. Sólveig vonast til þess að ekki komi til átaka á morgun. Hún telur þó líklegt að einhverjir muni láta reyna á að fremja verkfallsbrot.

„Við munum vera í verkfallsvörslu að einhverju leyti sameiginlega með VR. Við munum fara á milli hótela og sinna eftirlit með rútum líka. Þegar kemur að hótelunum munum við náttúrulega sérstaklega fara á þau hótel sem gerðust sek að okkar mati um einhvers konar verkfallsbrot 8. Mars,“ segir Sólveig Anna í samtali við Fréttablaðið.

Hún segist ekki sannfærð um að dagurinn gangi „snuðrulaust fyrir sig“ á morgun.

„ Það er alls ekki tilfinningin sem ég er með,“ segir Sólveig.

Á ekki von á átökum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Fréttablaðið að undirbúningur sé á áætlun fyrir verkföll á morgun.

„Þetta er allt á áætlun og við erum að samræma okkur við Eflingu í vörslunni. Þetta gengur allt á áætlun og ég vona að fyrirtækin virði það sem við erum að gera og sömuleiðis að þetta fari allt vel fram,“ segir Ragnar.

Vart mikið sótt um undanþágur, eins og hjá Eflingu?

„Ekki eins mikið. Þetta snerist meira að bílstjórum og akstri og slíku þannig við höfum ekki fengið eins margar beiðnir,“ segir Ragnar.

Áttu von á því að það verði einhver átök?

„Nei, ég á ekki von á því. Ég reikna með því að fólk taki þessu vel og þetta fari allt saman vel fram,“ segir Ragnar.

Aðgerðir hafa víðtæk áhrif

Ljóst er að aðgerðir morgundagsins munu hafa víðtæk áhrif í samfélaginu, á bæði ferðaþjónustu og aðra. Tilkynnt var í kvöld að enginn skólaakstur verði í Reykjavík á morgun og að víða muni falla niður sundkennsla.

Sjá einnig: Enginn skóla­akstur í Reykja­vík vegna verk­falls

„Sorgardagur fyrir allt samfélagið“

Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir morgundaginn vera „sorgardag fyrir allt samfélagið“.

Hann segir það sorglegt, að VR af öllum stéttarfélögum, hafi ákveðið að grípa til slíkra aðgerða með Eflingu.

„Það er ljóst að ekki er einhugur innan VR með þessa aðferðarfræði, enda var verkfallið samþykkt með minnsta mögulega mun. Ég hef varað við því að verkföll í kólnandi hagkerfi, með flugfélögin í tvísýnni stöðu samhliða loðnubresti séu hættulegur leikur með óvissuútkomu. Morgundagurinn er sorgardagur fyrir allt samfélagið í heild,“ segir Halldór Benjamín í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

250 milljóna króna tjón á hverjum degi

Fyrr í kvöld var greint frá því að Samtök ferðaþjónustunnar telji að tjón verkfallanna geti numið allt að 250 milljónum á hverjum degi. Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Bjarnheiður Hallsdóttir, sagði að þó aðgerðirnar beinist að fyrirtækjum í ferðaþjónustu, þá valdi aðgerðirnar öllu samfélaginu skaða.

Hún segir að ef gera megi ráð fyrir að verkföllin standi í 18 daga megi ætla að tjónið geti í heild numið 4,5 milljörðum. Sú tala taki aðeins til þeirra fyrirtækja sem verði beint fyrir verkföllum. Tjón samfélagsins myndi nema alls um 600 milljónum króna.

Verkföll Eflingar og VR hefjast, eins og fyrr segir, á miðnætti og standa í heilan sólarhring. Næstu verkföll eru áætluð 28. og 29. mars. Þau standa í tvo sólarhringa.