Fyrirhuguð verkföll rútubílstjóra gætu haft áhrif á flugfélagið Icelandair. Greint var frá fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum verkalýðsfélaganna Eflingar og VR undir lok síðasta mánaðar, en um er að ræð sex verkföll sem gætu staðið allt fram í miðjan apríl. Frá fyrsta maí hefur ótímabundið verkfall verið boðað. 

Sjá einnig: Sex verk­falla hrina fram í apríl og loks ó­tíma­bundið

Verkföllin ná til hótela og rútufyrirtækja, hótelin eru 25 talsins en rútufyrirtækin tvö til þrjú. Þar á meðal eru rútufyrirtækin Grayline og Reykjavík Excursions, en það síðarnefnda hefur síðustu ár séð um að flytja áhafnarmeðlimi Icelandair til og frá Keflavíkurflugvelli.  

Samkvæmt Ásdísi Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, er flugfélagið með málið til skoðunar og hvaða áhrif verkföll gætu mögulega haft á flugfélagið, ef til þeirra kemur. Ekki fengust frekari upplýsingar um stöðu mála hjá flugfélaginu, aðgerðaráætlun eða annað, þegar eftir því var leitað.

Sjá einnig: Verk­fall hrein­gerninga­fólks sam­þykkt

Verkföll rútubílstjóra hafa engin áhrif á ferðir WOW air, að því sem fram kemur í svari frá Svanhvítu Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, en fyrirtækið Crew ehf. sér um að aka áhafnarmeðlimum frá höfuðborgarsvæðinu og á flugvöllinn.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir helgi að fyrirhuguð verkföll gætu haft mjög slæm áhrif og gætu haft áhrif á starfsmenn og áhafnir flugfélaganna. 

„Það er klárt mál að tjón hótela verður töluvert af þessu. Ég tala nú ekki um ef við horfum til þess að það verði fleiri dagar í röð og boðað sé verkfall hjá rútufyrirtækjum líka, sem samkvæmt því sem komið er fram, á að beinast að farþegum sem fari frá Keflavík til Reykjavíkur. Það hefur áhrif á starfsmenn flugvallarins og áhafnir flugfélaganna. Þannig að þetta getur valdið alveg gríðarlega tjóni og ég get ekki sagt annað en að það séu ákaflega mikil vonbrigði að það séu svona lítill hluti verkalýðshreyfingarinnar sé að greiða atkvæði gegn því að valda svo miklu tjóni fyrir alla og allt samfélagið,“ sagði Jóhannes. 

Í gær hófust atkvæðagreiðslur hjá Eflingu um verkfallsaðgerðir hjá bæði starfsfólki hóteli og hópbifreiða, þar með talið vagnstjóra strætó. Atkvæðagreiðslunni lýkur næsta laugardag. Í dag hefst rafræn atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun félagsmanna VR hjá hópbifreiðafyrirtækjum og hótelum.