„Við hefðum ekki notað þessa aðferð nema við værum mjög örugg um að þetta mætti. En það er frábært að fá það staðfest að við megum nota þessa aðferð. Við fögnum því mikið,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um þá niðurstöðu Félagsdóms að boðað verkfall hótelþerna í félaginu væri í samræmi við lög.

Verkfallið sem hefst klukkan tíu í dag ber upp á Alþjóðlegan baráttudag kvenna. „Fyrsta verkfallið er á þessum merkisdegi. Það er bara eitthvað til að gleðjast yfir. Ég get varla verið eina konan í þessari borg sem gleðst og fagnar innilega,“ segir Sólveig Anna.

Hún segist halda að félagsmenn sínir sem væru að fara að taka þátt í aðgerðunum gleddust líka. „Þær konur og þeir karlar sem raunverulega aðhyllast kvenfrelsi og styðja raunverulega kvenréttindabaráttu, sem í grunninn snýst ekki síst um efnahagslegt frelsi, hljóta að fagna gríðarlega.“

Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir stöðuna snúna. „Við þurfum ekki að loka hótelunum og við getum tekið við þeim gestum sem eru að koma en þeir gestir sem þegar eru hér fá skerta þjónustu.“

Hann segir tjónið nú þegar orðið gríðarlegt. „Við þolum ekki marga daga af verkföllum. Við erum nú þegar að upplifa kólnun í greininni. Staðan er mjög viðkvæm og við þurfum að gæta að orðsporinu.“

Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Hótels Sögu, tekur í svipaðan streng. „Þetta þýðir auðvitað skerta þjónustu fyrir okkar gesti. Við reynum okkar allra besta en auðvitað er þetta heilmikið áfall fyrir okkur.“

Ingibjörg segir að þeir örfáu starfsmenn sem megi ganga í störf þernanna verði lengur að þrífa herbergin.

„Þetta er auðvitað löglega boðað verkfall og við pössum okkur að fara algjörlega að lögum og reglum í þessu. Það er réttur fólks að fara í verkfall.“

Hún segist líka hafa áhyggjur af framhaldinu. „Þetta hefur verið að segja til sín og bókunarstaðan fyrir næstu mánuði er bara miklu slakari en við höfum séð í mörg ár. Þetta gerir illt verra. Við höfum verið í átaki við að efla það en svo spyrst þetta út og það hægir enn þá meira á.“