Félagsdómur dæmdi í dag fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir Eflingar ólögmætar. Fyrirhugað var að félagsmenn Eflingar færu í svokölluð „örverkföll“.

Aðgerðirnar voru samþykktar í atkvæðagreiðslu félagsmanna Eflingar um helgina. Samþykkt var að fara í hefðbundin verkföll, en einnig truflun á vinnu. Meðal annars átti að hætta þrífa klósett á hótelum í síðustu viku marsmánaðar og fram í lok apríl. Eins áttu hópferðarbílstjórar að sleppa því að rukka í strætói í fimm vikur.

Félagsdómur dæmdi fjögur verkföll Eflingar ólögmæt. Um er að ræða verkföll sem lýst hefur verið sem örverkföllum og vinnutruflunum. Eftirfarandi verkföll voru dæmd ólögmæt:

1. Verkfall á 40 hótelum frá og með 18. mars: Starfsmenn sinni ekki ákveðnum störfum eða einungis þeim sem tilgreind eru í starfslýsingu.

2. Verkfall hjá fyrirtækjum í hópbifreiðaakstri frá og með 18. mars:  Starfsmenn sinni ekki ákveðnum störfum eða einungis þeim sem tilgreind eru í starfslýsingu,

3. Verkfall hjá almenningsvögnum Kynnisferða frá og með 18. mars: Starfsmenn dreifi kynningarefni frá Eflingu, stöðvi bifreið í 5 mínútur og þrífi ekki bifreiðar

4. Verkfall hjá Almenningsvögnum Kynnisferða frá og með 18. mars: Bílstjórar annist ekki eftirlit með greiðslu fargjalds

Dómur var kveðinn upp eftir þrjá tíma

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar niðurstöðu dómsins fyrir hönd fyrirtækja og „samfélagsins í heild“. „Dómsuppsagan var rétt um þremur klukkustundum eftir að málflutningi lauk og dómurinn er einróma um að örverkföll Eflingar séu dæmd ólögmæt,“ segir Halldór í samtali við Fréttablaðið. „Það er álit SA að Efling hafi verið að reyna á þanþol vinnulöggjafarinnar, en þessari túlkun Eflingar hafnar dómurinn einróma.“

Aðspurður segir Halldór að SA geri ekki athugasemd við önnur fyrirhuguð  og öllu hefðbundnari verkföll Eflingar, sem munu hefjast á föstudaginn næstkomandi. Hann segir að enn sem áður sé verkefnið að ná kjarasamningum áður en verkföllin hefjast.

Dómurinn „vonbrigði“ fyrir Eflingu

Ekki hefur tekist að ná í Sólveigu Önnu Jónsdóttur vegna málsins. Hins vegar segir í tilkynningu á heimasíðu Eflingar að niðurstaða Félagsdóms séu vonbrigði og að hefðbundin verkföll muni hefjast á föstudag. „Það er miður að félagsmenn okkar fái ekki að nýta verkfallsréttinn til fulls. Þessar aðgerðir eru hófsamar og byggja á stigmögnun frekar en að til fullra áhrifa komi strax,“ er haft eftir Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóri Eflingar. „En við hlítum að sjálfsögðu þessum dómi og lærum af honum.“

„Við erum hvergi af baki dottin og höldum ótrauð áfram með hefðbundin verkföll sem boðuð hafa verið og hefjast næstkomandi föstudag,“ er haft eftir Sólveigu Önnu.

Dómur Félagsdóms hefur ekki verið birtur.

Fréttin hefur verið uppfærð.